Vandað sig við að sauma
Febrúar 2016
Margar kynslóðir Íslendinga hafa fljótlega eftir upphaf skólagöngu sinnar verið látnar gera svokallaða handavinnuprufu. Verkefninu var ætlað að kenna nemendum grunnspor í útsaumi. Hér sést stúlka við sauma á slíkri prufu í herberginu sínu, með áhorfanda sér við hlið.
Reyndar er vinnusvæðið heldur óvenjulegt þar sem stúlkan saumar uppi í rúmi. Bekkjarbræður þessarar stúlku hafa væntanlega ekki þurft að skila sama verkefni því að á þessum tíma, árið 1973, var handavinnukennsla enn kynbundin á Íslandi. Strákar fóru í smíði, en stelpur í handavinnu allt til ársins 1977 þegar sá háttur var afnuminn og handavinnan fékk ný heiti eins handmennt og síðar textílmennt.
Guðríður Þórðardóttir 10 ára liggur veik uppi í rúmi, en oft var það þannig að börn voru háttuð ofan í rúm í veikindum og látin liggja. Guðríður er að hjálpa vinkonu sinni, Gyðu Júlíusdóttur, með handavinnu. [1]
Það er ekki oft sem gefast tækifæri til að skyggnast inn í barnaherbergi fortíðarinnar, hvað þá að sjá barn háttað niður í rúm. Þar má segja að áhugaljósmyndarinn komist yfir þröskuld sem atvinnuljósmyndarinn kemst ekki. Fólk þarf að vera náið til þess fá að taka slíka mynd og þar bætir áhugaljósmyndunin miklu við hvað varðar myndefni frá fyrri tímum.
Þau leikföng, sem sjást á myndinni, eru hefðbundin fyrir fyrri hluta sjötta áratugar síðustu aldar. Uppblásinn Andrés önd með bláan fisk í hönd liggur við hlið Guðríðar. Á tekkhillu yfir höfðagafli er brúðum stillt upp, tvær þeirra eru enn í kössum sínum. Tvær litlar jólasveinastyttur standa hvor sínum megin á hillunni. Vinstra megin við þær er lesefni, m.a. bók sem heitir Perlur 7 og Snúður og Sælda. Á veggnum vegg hangir útsaumsmynd af þremur kettlingum. Flöskur með naglalakki sjást í gluggakistunni. Lengst til hægri sést borð sem Gyða styður olnboganum á. Það er klætt með plastdúk sem skreyttur er blómum. Ofan á því virðist vera efni til saumaskapar, útsaumsbönd og jafi.
Einbeitnin skín úr svipnum á vinkonunum og Guðríður lætur veikindin ekki aftra sér í að leggja vinkonu sinni lið.
Kristín Halla Baldvinsdóttir
[1] Viðtal við Svanfríði Þórðardóttur 9.12.2015.