Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð 18.-23. apríl og sumardagurinn fyrsti!

18.-23. apríl

Landvættir og aðrar íslenskar kynjaverur, opnar 18. apríl kl. 11:00

Barnamenningarhátíð í Þjóðminjasafninu

Sýning á verkum nemenda leikskólans Lyngheima í Grafarvogi.

Þjóðminjasafnið og leikskólinn Lyngheimar í Grafarvogi tóku saman höndum og skipulögðu þrjár heimsóknir leikskólabarnanna á safnið. Börnin unnu ýmis verkefni, meðal annars um skjaldarmerki Íslands og landvættina, uppáhalds hlutinn sinn og Valþjófsstaðahurðina. Börnin unnu líka fjórar sögur og leikrit í myndvinnsluforritinu Pupet Pals. Á sýningunni er afrakstur vinnu nemenda sýndur.

Samvinna safna og skóla eru afar gefandi fyrir bæði börn og hina fullorðnu sem með þeim starfa. Fræðslan dýpkar þegar safnaheimsóknin felur í sér undirbúning og úrvinnslu í leikskólanum. Þá opnast nýir heimar, þar sem sköpunarkrafturinn fær útrás og börnin tengja við eigin reynsluheim.

Sýningin er opin frá 18. til 23. apríl og er opnun fyrir nemendur og aðstandendur þeirra 18. apríl kl. 10:00.


Tjáning um kynheilbrigði, opnar 19. apríl kl. 14:00

Barnamenningarhátíð í Þjóðminjasafninu

Nemendur 8. bekkjar Hagaskóla sýna verk sem fjalla um kynheilbrigði, kynvitund og öll tabúin sem hafa fylgt þeim.

Textílverk eftir 170 nemendur í 8. bekk í Hagaskóla. Verkin á sýningunni eru innblásin af verkum listakonunnar Kristínar Gunnlaugsdóttur. Verk Kristínar fjalla oft um líf konunnar og kynvitund og tengjast því umræðum um jafnrétti kynjanna og mikilvægi heilbrigðar sjálfsvitundar, ekki síst hjá ungu fólki.

Nemendur unnu verk sínu undir handleiðslu Brynju Emilsdóttur og Hjörnýjar Snorradóttur kennara í VIKU 6 sem er hluti af kynheilbrigðisfræðslu grunnskólanna. Hagaskóli er virkur þátttakandi í LÁN (listrænt ákall til náttúrunnar), verkefni á vegum Skóla og frístundasviðs Reykjavíkur þar sem unnið er þverfaglega með málefni náttúrunnar.

Sýningin er opin frá 18. til 23. apríl en formleg opnun fyrir nemendur og aðstandendur þeirra er 19. apríl kl. 14:00.


Á sumardaginn fyrsta munu skært lúðrar hljóma!

Skemmtileg sumardagskrá milli klukkan 14:00 og 16:00 á sumardaginn fyrsta, þann 20. apríl. 

Sumarleikir, úti og inni

20230329_110610

Sóley Ó. H. Elídóttir íþrótta- og lýðheilsufræðingur mun stýra skemmtilegum útileikjum á lóð safnsins. Sóley mun kenna einstaklings og hópleiki og hvetjum við alla til að koma og hita sig upp fyrir sumarið. 

Öxar við ána, skyndisýning sem opnar 20. apríl

KornettÁ skyndisýningunni (sem margir þekkja undir enska hugtakinu „pop-up“ sýning) verður sýnt kornett úr eigu Helga Helgasonar (1848-1922) en hann var frumkvöðull í lúðrablæstri á Íslandi, trésmiður og tónsmiður. Hann varð fyrstur Íslendinga til að læra á blásturshljóðfæri. Helgi samdi mörg þekkt sönglög, þar á meðal Öxar við ána, sem samið var á kornettið. 

Það er ómögulegt að fagna sumarkomu án lúðrablásturs. Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar kemur til okkar og leikur fyrir gesti kl. 14:00.

Ludrasveit-tonhaf


15% afsláttur af öllum leikföngum í Safnbúð á sumardaginn fyrsta.

Við hlökkum til að sjá ykkur.