Tímabil
  • Konni á 20.öldinni

1900-2000 Leiðin til samtímans

Á 20. öld breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið. Þjóðin myndaði sjálfstætt ríki. Konur fengu mannréttindi. Meirihluti íbúa settist að í þéttbýli. Lífshættir gerbreyttust. Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans. Mótorar voru settir í bátana og keyptir gufuknúnir togarar. Það var upphafið að atvinnubyltingu Íslendinga.

Árið 1904 fengu Íslendingar heimastjórn. Árið 1918 varð Ísland sjálfstætt ríki í konungssambandi við Danmörku og lýðveldi var stofnað 1944. Á næstu áratugum öðluðust Íslendingar vald yfir fiskimiðum sínum.

Skömmu eftir 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa fyrst meiri en sveitafólks. Sú þróun hefur haldið áfram. Í aldarlok voru Íslendingar um 280.000. Af þeim bjuggu rúm 90% í þéttbýli og yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.

Gripir 20. aldar

FæribandiðGripaflóra 20. aldar er gífurlega fjölbreytt. Fjöldaframleiðsla, ofgnótt og síbreytileg tíska og tækni setja mark sitt á tímabilið. Gripir úreldast hratt og safnafólki er viss vandi á höndum. Miklu þarf að safna, en geymslurými er oft lítið. Í upphafi aldarinnar var enn lítið farið að safna munum og minjum tengdum atvinnuháttum og híbýlum manna.

En tímamót urðu árið 1944 er samningur var gerður um varðveislu Ásbúðarsafns. Í því er að finna mörg þúsund fágæta gripi sem tengjast daglegu lífi fram yfir miðbik aldarinnar. Þjóðminjasafnið eignaðist einnig fleiri sérsöfn, svo sem alþingishátíðarsafn, sjóminjasafn, landbúnaðarsafn, iðnminjasafn og listiðnaðarsafn, sem einkum geyma gripi frá fyrri hluta aldarinnar. Frá síðari hluta 20. aldar má nefna Kringlusafnið, safn gripa frá upphafsári verslunar­miðstöðvarinnar.púði

Gripir frá síðari hluta 20. aldar eru hins vegar enn að berast og stöðugt bætist við safnkostinn. Mynda­safn Þjóðminja­safnsins er mjög stórt og lykilsafn í tenglsum við sögu 20. aldarinnar. Þjóð­­minjasafn Íslands hefur lögum samkvæmt marg­vís­legum skyldum að gegna sem höfuðsafn á sviði minjavörslu, en byggða­­­ söfn og ýmis sér­söfn sinna einnig söfnun sam­tímaminja.

Hvítbláinn - lykilgripur tímabilsins 1900-2000

Tákn 20. aldar er fáni sem skipherra á dönsku herskipi gerði upptækan á Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913.

Um 1900 vildu margir Íslendingar eignast þjóðfána. Flestir kusu fána þar sem blár flötur táknaði fjöll landsins og hvítur kross jöklana. Á fyrstu árum 20. aldar var oft flaggað með þessum fána án þess að yfirvöld fyndu að því.

En samkvæmt lögum var aðeins leyfilegt að flagga danska þjóðfánanum á skipum sem tilheyrðu danska ríkinu. Því tók samviskusamur danskur skipherra fánann af manni sem hafði dregið hann upp á skemmtibát á Reykjavíkurhöfn. Þetta varð tilefni fjölmennra mótmælaaðgerða.

Árið 1915 fengu Íslendingar eigin fána, en þá var valin önnur tillaga þar sem rauður kross er lagður inn í hvíta krossinn.