Eldri sýningar

Á mótum tveggja tíma

  • 2.12.2006 - 12.3.2007, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á sýningunni Á mótum tveggja tíma gat að líta ljósmyndir úr safni hins þjóðþekkta Guðna Þórðarsonar eða Guðna í Sunnu, blaðamanns, ljósmyndara og ferðamálafrömuðar. Sýndar voru myndir víða af á landinu frá miklu umbrotaskeiði í sögu þjóðarinnar. Myndir Guðna í Sunnu eru eins og tímasneið frá árunum 1946 til 1960. Þar má sjá fólk við hversdagslega iðju og alls konar störf úti og inni: menn á sjó, konur við fiskverkun, réttirnar, heybaggaflutninga, vinnuvélar í sveitum sem voru nýjung á þeim tíma, vegagerðarmenn og bifvélavirkja við vinnu o.s.frv. En þar er sitthvað fleira svo sem fjölskylda við tedrykkju í fínu stofunni, litlir prúðbúnir strákar á bryggjunni og viðskiptavinir í röð við búðarborð kaupmannsins.

Í myndum Guðna mætir hið nýja hinu gamla á eftirminnilegan hátt. Hann skráði sögu tímabilsins listilega með myndavélinni og gegnum ljósmyndirnar má skynja hve skjótt allt breytist og verður að sögu.

Á sama tíma og myndir Guðna voru til sýnis í Þjóðminjasafninu gaf Vaka-Helgafell út ævisögu hans sem Arnþór Gunnarsson hefur skrásett.

Guðni Þórðarson var sjálfmenntaður á sviði ljósmyndunar, kynntist töfrum hennar þegar honum var gefin myndavél í fermingargjöf og tók síðan myndir víða um allt land á árunum 1946 til 1960 í tengslum við störf sín og ferðalög. Hann starfaði jöfnum höndum við blaðamennsku og ljósmyndun, varð blaðamaður með myndavél og skar sig úr því á hans tíma var stétt blaðaljósmyndara ekki orðin til.

Myndir Guðna og frásagnir voru oft samtvinnaðar og birtust í Tímanum þar sem hann starfaði lengst en líka í tímaritinu Samvinnunni, búnaðarritinu Frey, starfsmannablaðinu Hlyn, hefti með Reykjavíkurmyndum og víðar. Þegar eftir var leitað tók Guðni fjölskyldumyndir í heimahúsum og í stuttan tíma myndaði hann veisluglauminn í Gyllta salnum á Hótel Borg. Ásamt Hjálmari R. Bárðarsyni gegndi hann lykilhlutverki í ljósmyndun á Iðnsýningunni 1952 í Reykjavík, einni af metnaðarfyllstu sýningum sem Íslendingar hafa haldið.

Guðni lærði síðar ljósmyndablaðamennsku hjá Time-Life og ruddi brautina fyrir nýjungum á því sviði hérlendis.

Síðar lagði hann myndavélina á hilluna og haslaði sér völl í ferðamálabransanum. Eftir það var hann oftast kenndur við fyrirtæki sitt og kallaður Guðni í Sunnu.

Á sýningunni Á mótum tveggja tíma voru bæði frumprent eftir Guðna sjálfan og nýjar stækkanir eftir Ívar Brynjólfsson ljósmyndara sem var sýningarhöfundur ásamt Ingu Láru Baldvinsdóttur fagstjóra Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu.