Eldri sýningar

Guðvelkomnir, góðir vinir! Útskorin íslensk horn

  • 11.2.2011 - 31.12.2011, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á Íslandi hefur lengi verið sterk útskurðarhefð og aðallega var skorið í tré og horn. Íslenskur útskurður ber auðþekkt einkenni. Skyldleiki var með útskurði hér á landi og í Noregi á fyrri öldum. Það má sjá á útskurði í norskum trékirkjum og varðveittum íslenskum tréskurði. 

Hér á landi þróaðist einstök leikni í hornskurði. Skrautið einkenndist af stílfærðum og óhlutbundnum munstrum. Jafnframt var skorið myndefni úr Biblíunni, tilvitnanir úr hinni helgu bók, bænir, áletranir og fangamörk.

Í heiðni tíðkaðist að drekka minni Óðins og fleiri guða. Siðurinn hélst eftir að kristni var lögtekin, en þá voru drukkin minni Guðs, Krists og helgra manna. Ritaðar heimildir vitna um drykkjarhorn í eigu kirkna.
Elstu varðveittu hornin eru frá miðöldum. Þegar kom fram á sautjándu öld lifði hefðin enn góðu lífi og hélst eftir það allt fram á nítjándu öld. Drykkjarhorn útskorin á átjándu öld eru kölluð brennivínshorn. Þau eru jafnan minni og á þeim snýr mjóendinn upp, öfugt við það sem var á miðöldum. Með tilkomu skotvopna reyndust horn vera hentug til þess að geyma í púður. Dæmi eru um að drykkjarhorn öðluðust nýtt hlutverk sem púðurhorn.

Útskorin horn reyndust eftirsótt meðal erlendra ferðamanna sem sóttu Ísland heim á átjándu. og nítjándu öld. Mörg varðveitt, útskorin, íslensk horn eru nú geymd á evrópskum söfnum.

Meðal merkra gripa á sýningunni eru níu drykkjarhorn frá miðöldum. Þrjú þeirra eru eign danska Þjóðminjasafnsins en sex eru úr Þjóðminjasafni Íslands. Alls eru varðveitt tíu miðaldadrykkjarhorn í Þjóðminjasafni Íslands og þau fjögur sem ekki eru á sýningunni í Bogasal eru á grunnsýningu safnsins (á 2. hæð), auk þess sem lykilgripur sautjándu. aldar (á 3. hæð) er Kanahornið, sem er í láni frá danska Þjóðminjasafninu. Því gefst nú einstakt tækifæri til að skoða öll þessi horn undir einu þaki.

Nafn sýningarinnar er dregið af áletrun á Fagnaðarhorninu frá sautjándu öld:

Guðvelkomnir, góðir vinir, gleðjist.