Eldri sýningar

Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna

  • 24.11.2018 - 21.4.2019, 10:00 - 17:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Guðshús hafa öldum saman verið íburðarmikil hús auk þess að hýsa helstu listgripi þjóða. Þannig var því einnig farið á Íslandi. 

Kirkjur og kirkjugripir urðu þremur mönnum rannsóknarefni á 20. öld og allir skráðu þeir rannsóknir sínar með myndrænum hætti. Eitt af fyrstu rannsóknarefnum Matthíasar Þórðarsonar í starfi þjóðminjavarðar voru kirkjugripir í öllum kirkjum landsins. Hann gerði nákvæmar úttektir og skrár yfir kirkjugripi hverrar kirkju, greindi aldur þeirra og listrænt gildi auk þess sem hann myndaði stundum kirkjugripina. Í biskupstíð sinni á fyrri hluta 20. aldar heimsótti Jón Helgason flestar kirkjur landsins. Í ferðunum hafði hann með sér teikniblokk og teiknaði einstaka kirkjur, kirkjustaði og stundum kirkjurnar í umhverfi sínu í þorpum og bæjum. Sumar myndanna voru vatnslitaðar. Á ferðum sínum um landið heimsótti Þór Magnússon þjóðminjavörður kirkjur og fór yfir skrár fyrirrennara sinna yfir kirkjugripi og jók við þær. Hann tók myndir bæði af kirkjum og kirkjugripum. 

Úrval mynda þessara þriggja manna veita innsýn í íslenskar kirkjubyggingar og þann menningararf sem þær hafa að geyma.

Hátíðarsýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands. 
Sýningin er styrkt af Afmælisnefnd um 100 ára fullveldi Íslands.