Eldri sýningar

Kistlar og Stokkar

  • 15.1.2011 - 31.12.2011, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Á sýningunni má sjá kistla útskorna með höfðaletri, sem er séríslensk leturgerð. Notkun höfðaleturs einskorðaðist nánast alla tíð við gripi úr tré, málmi og horni. Það er ekki fyrr en á 20. öld sem efnisnotkunin verður fjölbreyttari. Áletranir voru ýmist trúarlegs eðlis, vísur eða persónu-legar kveðjur, oft með nafni þess er átti gripinn og ártali.  

Í Þjóðminjasafni Íslands er varðveittur fjöldi kistla og stokka af ýmsu tagi. Þeir elstu eru hátt í 500 ára gamlir og þeir yngstu eru frá 20. öld. Kistlar voru handsmíðaðir, útskornir og skreyttir og yfirleitt gerðir fyrir ákveðna persónu, eftir pöntun eða til gjafa. Hver kistill er einstakur og segir sína sögu.

Kistill var kjörgripur sem gekk gjarna í erfðir. Hann var hirsla fyrir persónulegar eigur fólks sem oft voru æði litlar sé miðað við ofgnótt dagsins í dag. Kistillinn var yfirleitt eini geymslustaðurinn sem fólk átti fyrir smámuni eins og skart, sendibréf og peninga, væru þeir til.

Kistlarnir voru hluti af innanstokksmunum baðstofunnar. Þeir stóðu oft á hillu yfir rúmi, framan við rúmstokkinn eða undir rúmi eigandans. Hentugt var að leggja frá sér smáhluti á kistilinn og hann gegndi jafnvel hlutverki hests í barnaleikjum, eins og segir í kvæði Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds:

Ríðum heim til Hóla.
Pabba kné er klárinn minn,
kistill mömmu fákur þinn.
Ríðum heim til Hóla.