Eldri sýningar

Kvikskynjun

  • 29.8.2009 - 11.10.2009, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Sýning á verkum blindra og sjónskertra barna úr Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur haldið sérstök námskeið fyrir blind og sjónskert börn frá sumri 2005. Námskeiðin hafa ýmist verið í samstarfi við Sjónstöð Íslands eða foreldrafélag Blindrafélagsins.
Markmið kennslunnar er að bjóða nemendum upp á skapandi vinnu út frá þeirra forsendum og styrk og í því margvíslega umhverfi sem finna má í Myndlistaskólanum þar sem um 600 nemendur eru við nám á hverri önn. Verk blindra og sjónskertra barna hafa verið mikil viðbót við verkefnaflóru skólans - sem þó er býsna fjölbreytt fyrir. Áhugi hefur verið á verkefninu meðal annarra kennara og nemenda skólans - og allra þeirra sem rekið hafa augun í þessi forvitnilegu verk.

Í kennslunni hefur verið leitast við að vinna í ólíkum skala, að verkin séu bæði stór og smágerð og að efniviður sé óvæntur og fjölbreyttur - og þar sem við á eru dæmi tekin úr samtímalistasögunni. Með þessu móti fær ímyndunarafl nemenda aukinn kraft og styrkur hvers og eins fær notið sín.
Kennarar á námskeiðunum voru Brynhildur Þorgeirsdóttir og Margrét H. Blöndal.