Eldri sýningar

Með kveðju

Myndheimur íslenskra póstkorta

  • 28.5.2016 - 18.9.2016

Á sýningunni "Með kveðju" eru póstkort úr safneign Þjóðminjasafnsins frá árinu 1898 og allt til dagsins í dag. Kortin eru áhugaverður vitnisburður um fólk, fréttir og tíðaranda. Sýningunni er ætlað að veita yfirlit yfir myndefni á íslenskum póstkortum og opna augu gesta fyrir margbreytileika þeirra og menningarsögulegu hlutverki.  Á sýningunni gefst gestum færi á að senda póstkort til vina og vandamanna, en Pósturinn greiðir póstburðargjaldið. 

Bréfspjald, spjaldbréf, póstkort eða einfaldlega kort voru meðal þeirra heita sem notuð voru yfir einfalt pappaspjald (140 x 89 mm á stærð) þegar þetta alþjóðlega fyrirbæri var að nema land á Íslandi. Póstkortið fylgdi jarðarbúum alla 20. öldina og fljótlega varð mynd allsráðandi á annarri hlið þess. Sýningunni er ætlað að veita innsýn í myndheim íslenska póstkortsins með völdum dæmum eða syrpum frá tilteknum útgefendum, ljósmyndurum eða teiknurum en líka af einstökum efnisflokkum. Það er fjölbreyttur og áhugaverður heimur að kynnast. Eftirtektarvert er að ólíkt því sem ætla mætti er póstkortið enn vettvangur alls kyns sköpunar og skilaboða. 

Áætla má að útgefnar tegundir póstkorta á Íslandi séu yfir 20 þúsund. Póstkortasöfnun hófst í Þjóðminjasafni Íslands fljótlega eftir aldamótin 1900 og síðar áskotnuðust safninu tvö póstkortasöfn úr einkaeigu. Æ síðan hefur söfnunin staðið jafnt og þétt yfir og nú eru  um 17.000 póstkort í safninu. Sum þeirra eru reyndar til í nokkrum eintökum þannig að rauntalan er nokkru lægri. Af þessum kortum eru um 1.000 á þessari sýningu, sem spannar sögu póstkorta með íslensku myndefni fram á okkar daga. Vitað er um nokkur einkapóstkortasöfn sem eru stærri en söfn Þjóðminjasafnsins. 
Eitt af því sem kemur á óvart þegar skyggnst er í sögu póstkortsins er hversu upplag einstakra korta var stórt. Fyrsta prentun árið 1901 hjá Carl Proppé var 14 þúsund kort. Þegar fríkort voru að ryðja sér til rúms árið 1997 tók fólk um 95 þúsund kort úr stöndum útgefandans Nætur og dags á þremur vikum.