Með silfurbjarta nál - spor miðalda í íslenskum myndsaumi
Á sýningunni Með silfurbjarta nál - spor miðalda í íslenskum myndsaumi voru til sýnis útsaumuð handaverk listfengra kvenna frá ýmsum tímum. Veggtjöld voru bæði notuð í kirkjum og venjulegum híbýlum og á sýningunni er margt dýrgripa: hluti úr eina íslenska reflinum sem varðveist hefur, veggtjöld frá 17. og 18. öld, altarisklæði og kirkjugripir á borð við korpóralshús, hökul og altarisbrúnir. Myndefni útsaumsins er fjölbreytt, m.a. sótt í Biblíuna og sögur helgra manna en einnig í kynjadýraveröld fyrri alda. Þarna má sjá stílfært jurta- og dýraskraut, leturlínur úr sálmum og skýringarorð.
Einkennandi fyrir íslensk útsaumsmunstur eru hringreitir og marghyrndir reitir sem skipta fletinum og umlykja myndefnið. Útsaumsgerðirnar eru margvíslegar en sex þeirra eru sérlega algengar: refilsaumur, glitsaumur, skakkaglit, gamli krosssaumurinn, augnsaumur og blómstursaumur. Merking sumra hinna skrýtnu útsaumsorða er óviss en önnur eru gegnsæ. Merkastur er tvímælalaust refilsaumurinn, útsaumur eftir frjálsum áteiknuðum munstrum sem er þekktastur af altarisklæðum frá síðmiðöldum. Þau eru að saumi og efni náskyld hinum fræga Bayeuxrefli í Frakklandi frá 11. öld og dæmi má einnig finna á miðöldum í Noregi og frá lokum 16. aldar í Svíþjóð. Heitið refilsaumur þekkist hins vegar hvergi nema í íslenskum heimildum.
Refilsaumur dregur nafn sitt af reflum en þeir voru á miðöldum fremur mjó og aflöng lárétt veggtjöld sem höfð voru til að tjalda innan híbýli manna og kirkjur. Saumgerð reflanna er hvergi lýst en heitið refilsaumur gæti þó bent til að sá saumur hafi upprunalega tíðkast sérstaklega á reflum.
Mörg útsaumsverk eru í eigu Þjóðminjasafnsins og byggir sýningin Með silfurbjarta nál á niðurstöðum Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings sem lengi starfaði við safnið. Hún er fædd árið 1924 og gerði rannsóknir á íslenska refilsaumnum og textíl hvers konar að ævistarfi sínu. Sýningarhöfundur er Lilja Árnadóttir fagstjóri Munasafns Þjóðminjasafnsins.
Elsa E. Guðjónsson hefur ekki aðeins rannsakað varðveitt myndsaumsverk heldur gjörþekkir hún líka ritheimildir fyrri alda um efnið. Hún hefur auk þess beint athygli sinni að hannyrðakonunum á bak við verkin og eru allmargar þeirra nú þekktar. Íslenskar konur hafa vafalítið stundað útsaum frá upphafi byggðar en elstu varðveitt verk þeirra munu þó frá seinni hluta 15. aldar.
Sýningin Með silfurbjarta nál var haldin í tilefni af fyrirhugaðri útgáfu bókar Elsu E. Guðjónsson: Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur á miðöldum og eftir siðaskipti.
Titillinn bókarinnar vísar til frásagnar Jóns sögu helga um Ingunni lærðu Arnórsdóttur en þar segir: "Hon rétti mjök latínubækr, svá at hon lét lesa fyrir sér, en hon sjálf saumaði, tefldi, eða [vann] aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi at eins með orðum munnnáms, heldr ok með verkum handanna."
Um er að ræða grundvallarrit um íslenska refilsauminn með mörgum litmyndum. Það er ávallt stór áfangi í starfi Þjóðminjasafns Íslands þegar niðurstöður sérfræðinga þess koma fyrir almenningssjónir.