Eldri sýningar

Mynd á þili

  • 16.5.2005 - 23.10.2005, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýningin Mynd á þili var afrakstur rannsókna Þóru Kristjánsdóttur, sérfræðings í kirkjulist, á listgripum Þjóðminjasafnsins undanfarin ár en munirnir eru frá 16., 17. og 18. öld. Menntamálaráðherra, frú Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, opnar sýninguna.

Sýningin Mynd á þili var liður í Listahátíð í Reykjavík 2005 og var markmiðið að kynna til sögunnar listamenn sem hægt er að eigna ákveðin listaverk í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Í inngangi að sýningarskrá kemst Þóra meðal annars svo að orði:

Það er útbreiddur misskilningur að myndlist hafi ekki verið stunduð á Íslandi fyrr en í upphafi síðustu aldar með heimkomu frumkvöðlanna svokölluðu frá listnámi í útlöndum, þ.e. eftir meira en þúsund ára búsetu í landinu. Allt of fáir vita að í Þjóðminjasafninu er forn myndlistarfjársjóður falinn og þar er að finna áþreifanlegar heimildir um íslenska listasögu frá upphafi byggðar í landinu fram á miðja 19. öld.

Sýningin hefur hlotið einróma lof gesta og hefur verið afar fjölsótt.

Samhliða sýningunni var gefið út samnefnd bók Þóru um nafngreinda listamenn sem störfuðu á Íslandi á 16., 17. og 18. öld. Um listamennina og listaverk þeirra segir Þóra meðal annars:

Stólarnir frá Grund eru elstu gripirnir, en drykkjarhorn og útskorin beinspjöld ættuð frá Skarði á Landi eru elstu gripirnir sem íslenskur listamaður hefur sett ártal á. Það gerði Brynjólfur Jónsson bóndi og lögréttumaður í Skarði um aldamótin 1600. Síðan koma nafngreindir listamenn fram í dagsljósið í röðum, séra Gísli Guðbrandsson prestur í Hvammi, Jón Greipsson ættaður frá Snæfjöll-um, Guðmundur Guðmundsson frá Bjarnastaðahlíð, Jón Guðmundsson prestur á Felli, Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup, Illugi Jónsson í Nesi, Þórarinn Einars-son „galdrameistari“, séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði, Svefneyjabræðurnir Eggert Ólafsson og Jón yngri bróðir hans, norðlensku feðgarnir Hallgrímur Jónsson og Jón sonur hans, og loks Ámundi Jónsson smiður er lifði og starfaði á Suðurlandi á síðari hluta 18. aldar. Þetta eru nöfn íslenskra hagleiksmanna sem hafa verið ýmsum kunn, en nú hefur þeim verið eignuð fleiri verk en til þessa hefur verið unnt.

Sýningarhönnuður var Steinþór Sigurðsson.