Eldri sýningar

Nýjar myndir – gömul tækni

  • 19.1.2013 - 26.5.2013, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Votplötutæknin (Wet Plate) byggir á því að negatífa er tekin á gler- eða málmplötu sem þakin er kollódíonblöndu sem inniheldur joðsilfur og er síðan framkölluð með pyrogallicsýru. 

Ljósnæm himnan er ekki borin á plötuna fyrr en á staðnum í mesta lagi 50 skref frá myndavélinni rétt áður en myndin er tekin. Platan er því enn vot og af því dregur aðferðin nafn sitt. Plötunar eru lengi að taka við sér og því er myndin tekin á löngum tíma. Framkalla verður plötuna strax að lokinni myndatöku. Það krefst því mikils búnaðar að taka myndir með þessum hætti því auk myndavélarinnar þarf að ferðast með alla vökva sem til þarf og líka með sjálft myrkraherbergið sem er miðpunktur þessarar ljósmyndatækni. Hörður hefur smíðað stærstan hluta af þessum sértæka búnaði sjálfur. Úrval þessara mynda Harðar eru nú sýndar í fyrsta sinni. Þær sýna að nýjar byggingar og nútíma fólk fær gamladags yfirbragð með þessari tækni. Til að undirstrika það eru margar myndanna sviðsettar við gömul hús.