Eldri sýningar

Ókunn sjónarhorn

  • 30.9.2006 - 26.11.2006, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Ókunn sjónarhorn var greiningarsýning með myndum úr safni Þjóðminjasafnsins sem sýna óþekkta staði, hús og fólk. Ekki hafði tekist að bera kennsl á myndefnið og voru gestir beðnir um að þekkja það og gefa upplýsingar um það! Á sýningunni mátti sjá tæplega 150 ljósmyndir víða að af landinu, flestar teknar á tímabilinu 1930-1950. Skráningarblöð lágu frammi við sýninguna og þegar aðeins stutt var liðið á sýningartímann hafði þegar tekist að greina margar myndir með hjálp frá gestum Þjóðminjasafnsins. Slík greining gefur myndunum nýtt líf og gerir þær að mikilsverðari heimildum um fortíðina.

Oft ræður tilviljun því hvort mynd er tekin og hvað hún sýnir. Bíll nemur staðar og farþegarnir fá sér ferskt loft, einhver er bílveikur. Áð er til að borða nesti eða bæta bensíni á bíl. Tóm skapast til að taka mynd af samferðafólkinu eða umhverfinu. Á gangi um götu eru strákar að leika sér í vegkantinum í bílaleik og þeim er stillt upp til að taka af þeim mynd. Heimsókninni er lokið og heimilisfólkið og gestir stilla sér upp við bílinn eða bæjarþilið áður en haldið er af stað. Myndirnar enda í albúmi og verða hluti af minningabanka eigandans. Áratugum seinna lenda þær kannski fyrir hendingu í vörslu safns. Forvitni safnvarðanna vaknar. Hvar er myndin tekin? Hvað sýnir hún okkur? Sumt er kunnuglegt en annað er framandi.

Á hverju ári berst Þjóðminjasafni Íslands fjöldi ljósmynda til varðveislu, bæði pappírsmyndir og filmusöfn. Flestar koma frá einstaklingum. Mjög misjafnt er hve vel og nákvæmlega myndirnar eru skráðar og þótt allar myndir hafi ákveðið gildi í sjálfu sér eykst það og margfaldast við að þekkja það sem myndin sýnir. Þjóðminjasafnið hafði áður brugðið á það ráð með góðum árangri að sýna óþekktar myndir og leita eftir liðsinni safngesta við að þekkja og greina myndefnið. Haustið 2006 var enn gerð tilraun til að fá gesti til að taka þátt í slíkri gestaþraut. Fólk er hvatt til að leggja Þjóðminjasafninu lið og greina hvar og hvenær myndirnar á sýningunni Ókunn sjónarhorn eru teknar.