Eldri sýningar

Sjöund

Ljóðaumslag Gunnars Hersveins

  • 5.4.2008 - 19.4.2008, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Til sýnis er SJÖUND eftir Gunnar Hersvein rithöfund og Sóleyju Stefánsdóttur hönnuð. Verkið felst í ljóðaumslagi og sjö grafískum ljóðamyndum. Með SJÖUND er gerð tilraun til að sleppa ljóðinu lausu úr ljóðabókinni og fólk fær tækifæri til að senda ljóð hvert til annars.

Umslög geyma oftast bréf og á þau er ritað nafn og heimilisfang og frímerki er límt í hægra horn. SJÖUND Gunnars Hersveins er umslag sem uppfyllir þessi skilyrði ? en er um leið: einnig bréf. Móttakandi opnar umslagið, les nokkrar línur frá sendanda og ljóðabókina. Markmið Sóleyjar er meðal annars að sameina mynd og ljóð í einu formi. SJÖUND er handsaumað ljóðaumslag Sóleyjar Stefánsdóttur - grafískt og hjartnæmt.

Myndir geyma stundum ljóð sem varpa upp öðrum myndum í hugum fólks. Myndir Sóleyjar Stefánsdóttur eru þrykktar - og grafísk hönnun á ljóðum Gunnars Hersveins í ljóðaumslaginu SJÖUND.

Gunnar Hersveinn er hugvísindamaður sem starfar við miðlun og sköpun sem birtist í ritstörfum, kennslu og blaðamennsku hjá Reykjavíkurborg, Lesbók, Viðskiptablaðinu, Listaháskóla Íslands og JPV útgáfu. SJÖUND er fjórða ljóðabók höfundar. Önnur ljóðaverk eru Gægjugat 1987, Tré í húsi 1989, Í regnborg hljóðra húsa 1993. Gunnar Hersveinn skrifaði skrár fyrir sýninguna Skuggaföll í Þjóðminjasafninu 2005 - ljósmyndir Kristins Ingvarssonar og fyrir sýninguna Sog í Listasafni Reykjanesbæjar 2006 ? málverk Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar. Gunnar Hersveinn er kunnastur fyrir bókina Gæfuspor ? gildin í lífinu sem JPV útgáfa gaf út árið 2005. SJÖUND er til sölu í Safnbúð Þjóðminjasafnsins. /gunnars@hi.is.

Sóley Stefánsdóttir er hönnuður og hugvísindakona sem hefur starfað við grafíska hönnun og rannsóknir innan hönnunar og myndrænnar miðlunar. Í verkinu SJÖUND tekst hún, í samvinnu við Gunnar Hersvein, á við að opna möguleika ljóðlistar út fyrir hinar hefðbundnu ljóðabækur. Ljóð og lógó eru af sama meiði og hér gerir Sóley tilraun til að tefla þessum systkinum fram sem einni heild. Ljóð móta heim úr mörgum áttum, rétt eins og myndræn framsetning gerir ætíð. Myndirnar fást hjá höfundi. /soleyst@mac.com.