Skipulag og óreiða
Laugardaginn 29. október 2011 var opnuð sýning á teikningum Ólafar Oddgeirsdóttur á Torgi í Þjóðminjasafni Íslands. Frá því að Ólöf Oddgeirsdóttir lauk námi frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 hefur hún unnið að eigin myndlist, starfað við myndlistarkennslu og stundað nám í listfræði við Háskóla Íslands.
Ólöf hefur lengi sótt myndefni í gömul útsaums- og vefnaðarmynstur sem finna má í hannyrðum varðveittum á Þjóðminjasafni Íslands. Með þeirri tengingu hefur hún viljað minna á framlag íslenskra kvenna til myndlistar og handverks gegnum aldirnar.
Myndmál gömlu vefnaðarmynstranna var sótt til náttúrunnar; gróðurs, dýra og manna. Algengt myndefni var Lífsins tré en í því sátu fuglar í samhverfri uppröðun. Blómabekkir og kransar voru notaðir til skreytinga í altarisklæði, búninga kvenna, ábreiður af ýmsu tagi og sem skraut umhverfis myndir. Oft mynda hringform og ferningar ramma um mynstrin og auka þannig á tilfinningu fyrir skipulagi og skematískum táknmyndum af náttúrunni.
Teikningarnar á sýningunni sem eru gerðar á þessu ári eru unnar með blýanti og vatnslit á pappír. Í þeim er fléttað saman lífrænum formum náttúrunnar og hinum kunnuglegu útsaumsmynstrum og er þannig verið að vísa í samband skipulags og óreiðu. Allt frá því að stærðfræðingarnir D´Arcy Wentworth Thompson og Alan Turing tóku að skrifa um samband lífrænna og stærðfræðilegra þátta í náttúrunni um og fyrir miðja 20.öld, hefur áhugi manna beinst í ríkari mæli að óútreiknanlegum lögmálum mynsturs í náttúrunni. Skipulegar bylgjur eyðimerkursandsins, hreyfingar í stjörnuþokum, æðakerfi eða lungnaberkjur minna á árfarvegi eða rætur og greinar trjáa og mynstur í feldum dýra lúta stærðfræðilegum reglum þó engir tveir einstaklingar séu nákvæmlega eins.
Ólöf hefur sýnt verk sín víða, bæði innanlands og utan, á einkasýningum og á samsýningum. Hún hefur meðal annars sýnt í Gerðarsafni, Hafnarborg og Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Undanfarin sjö ár hefur hún tekið þátt í samstarfi hóps myndlistarkvenna um sýningaröðina ,,Lýðveldið Ísland“ . Hópurinn hefur farið um landið og sýnt verk sín í óhefðbundnum sýningarrýmum, eins og gömlum verksmiðjuhúsum og verstöðvum sem mörg hver geyma sögu horfinna atvinnuhátta. Markmiðið með verkefninu hefur verið að efna til skapandi samstarfs og samræðu innan hópsins og við heimafólk. Ólöf hlaut starfslaun frá Launasjóði Myndlistarmanna árið 2002 og var tilnefnd Listamaður Mosfellsbæjar árið 2007.