Eldri sýningar

Yfir hafið og heim - íslenskir munir frá Svíþjóð

  • 6.8.2008 - 31.1.2009, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Vorið 2008 var gengið frá sérstökum samningi milli Þjóðminjasafns Íslands og Nordiska museet í Svíþjóð um íslenska gripi sem hafa verið í eigu sænska safnsins frá því á 19. öld. Í tilefni þess að munirnir komu til Íslands vorið 2008 setti Þjóðminjasafn Íslands upp sýningu á gripunum sem stóð til 31. janúar 2009.

Gripir frá Íslandi eru varðveittir í söfnum víða í Evrópu. Á seinni hluta 19. aldar eignaðist hið nýstofnaða safn Nordiska museet í Stokkhólmi, sem þá var undir forystu Artur Hazelius, töluvert marga íslenska muni. Flestir íslensku munanna eru frá 18. og 19. öld og koma upphaflega frá bæjum víða um land. Margir munanna eru af Vesturlandi en séra Helgi Sigurðsson prestur á Melum í Melasveit safnaði mörgum þeirra og seldi til Svíþjóðar. Þess má geta að Þjóðminjasafn Íslands var stofnað árið 1863 en séra Helgi gaf þá Íslandi 15 gripi með ósk um að þeir yrðu ,,fyrsti vísirinn til safns íslenskra fornmenja“ en fram að því höfðu íslenskir gripir einkum verið sendir til varðveislu í dönskum söfnum.

Samtals voru nærri 800 íslenskir munir í Nordiska museet og eru margir þeirra útskornir gripir úr tré, svo sem kistlar, rúmfjalir og trafakefli. Meðal munanna frá Nordiska museet er ýmislegt sem tengist íslenska hestinum, söðlar, söðuláklæði og ýmsir gripir úr kopar tengdir reiðverum. Jafnframt eru þar búningar og búningaskart. Þá má geta þess að meðal gripanna eru prentaðar bækur og handrit. Munirnir eru góður vitnisburður um hagleik og listfengi Íslendinga og mikill fengur að þeim til rannsókna og miðlunar á íslenskum menningararfi á Íslandi. Úrval gripa verður áfram í Nordiska museet.

Samningurinn milli Nordiska museet og Þjóðminjasafns Íslands kveður á um að munirnir skulu vera í eigu Nordiska museet, en Þjóðminjasafnið muni annast varðveislu þeirra um alla framtíð.

Á sýningu Þjóðminjasafns Íslands Yfir hafið og heim - íslenskir munir frá Svíþjóð var lögð áhersla á að sýna sem flesta gripanna svo gestir gátu gert sér í hugarlund hvað og hverju var safnað.