Sýningar framundan

Á elleftu stundu

  • 17.9.2022 - 26.2.2023, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Í yfir þúsund ár voru torfhús helstu híbýli Íslendinga en upp úr 1970 höfðu þau lokið því hlutverki sínu og einungis var þá búið í örfáum torfbæjum. Engar alhliða áætlanir lágu fyrir um varðveislu torfhúsa og því var komið að endalokum þeirra fáu bæja sem eftir stóðu.

Það var íslenskur nemi í arkitektúr í Kaupmannahöfn sem upphaflega sendi hvatningu til danskra arkitektaskóla um að hefja skrásetningu á úrvali íslenskra torfhúsa áður en það yrði um seinan. Í náinni samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands skipulögðu skólarnir fjölda námsferða til Íslands á áttunda áratugnum og völdu ákveðin hús til að rannsaka. Í mörg sumur ferðuðust nemar og kennarar um landið til að mæla upp og teikna einstakan byggingarstíl íslenskra torfhúsa og annarra bygginga sem hætt var við að hyrfu. Rannsóknarleiðangrarnir urðu til þess að opna augu margra fyrir nauðsyn þess að varðveita íslenska byggingararfleifð.

Á sýningunni skyggnumst við inn í líf uppmælingafólksins og fáum innsýn í rannsóknirnar og niðurstöður þeirra. Skrásetning sumra húsanna nýttist við verndun þeirra og síðari endurbætur. Flest torfhúsanna voru þó að lokum rifin eða hrundu. Í mörgum tilfellum er skrásetningin einu heimildirnar sem til eru um þær byggingar.

Stór hluti rannsóknargagnanna — teikningar, ljósmyndir og fleira — er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands, eftir rausnarlega gjöf arkitektsins Poul Nedergaard Jensen og fleiri sem að rannsóknunum komu. Þau gögn lágu til grundvallar rannsóknarverkefni Kirsten Simonsen, I den 11. time (Á elleftu stundu). Samnefnt rit verður gefið út í tengslum við sýninguna.

Ljósmynd: Poul Nedergaard Jensen, Guðlaugsstaðir í Blöndudal, 1978