Sýningar í gangi

Brot úr framtíð

  • 8. júní 2024 - 10. nóvember 2024

Sýningin Brot úr framtíð í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands byggir á listrannsókn og myndlistarverkefni Þorgerðar Ólafsdóttur þar sem hún veltir fyrir sér fyrirbærum tengdum mannöld og hugmyndum okkar um menningar- og náttúruarf. 

Á sýningunni eru verk unnin með hliðsjón af munum úr safneign Þjóðminjasafns Íslands sem falla undir flokk núminja sem er hugtak sem Þorgerður notar yfir jarðfundnar minjar samtímans. Þess utan eru sýnd verk sem tengjast verkefni Þorgerðar í Surtsey sem nýlega kom út í bókinni Esseyja. Á sýningunni er vísir að framtíðarsafni eða heimildarsafni um fyrirbæri, muni og táknmyndir sem tengjast mannöld. Þetta eru fyrirbæri sem birtast okkur gegnum samruna menningar, náttúru og jarðefnis og ögra viðteknum hugmyndum um hvað sé menning og hvað náttúra, auk þess að gefa okkur innsýn í það hvernig arfleifð okkar í framtíðinni gæti litið út.

Sýningin Brot úr framtíð er unnin í samstarfi við hönnuðinn Garðar Eyjólfsson og rannsóknarverkefnið Relics of Nature sem Þóra Pétursdóttur prófessor í fornleifafræði við Háskólann í Osló leiðir.

Málþing
Þátttakendur rannsóknarverkefnisins halda málþing í Þjóðminjasafni Íslands, dagana 8.-9. nóvember 2024.

Hér má lesa nánar um málþingið

Hér má skoða rafræna sýningarskrá:

 

LIS-logo-2024-A-web

 Sýningin er á dagskrá Listhátíðar Reykjavíkur 

Þorgerður Ólafsdóttir lauk MA-prófi í myndlist frá Glasgow School of Art (2013). Í verkum sínum skoðar hún ólíka hluti sem eru samofnir skilningi okkar og sambandi við náttúruna á tímum mikillar vitundarvakningar. Hún hefur unnið að ýmsum sýningum og sjálfstæðum verkefnum undanfarin ár og gaf nýlega út bókina Esseyja / Island Fiction. Þorgerður tekur þátt í rannsóknarverkefninu Relics of Nature

Garðar Eyjólfsson lauk BA-prófi í vöruhönnun frá Central Saint Martins, London (2009) og MA-prófi (Cum Laude) í Contextual Design frá Design Academy Eindhoven (2011). Frá stofnun Studio Eyjolfsson árið 2012 hefur Garðar einblínt á betrumbætingu og nýtingu staðbundis hráefnis í vöruhönnun og stundað rannsóknir sem hverfast um hönnunarskáldskap (design fiction).

Kreditisti
Myndlistarkona: Þorgerður Ólafsdóttir
Sýningarhönnuður: Garðar Eyjólfsson
Grafísk hönnun: Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir)
Sýningarnefnd: Bryndís Erla Hjálmarsdóttir, Kristján Mímisson, Þóra Pétursdóttir

Mynd:
Eins og landslag II
2021
Ljósmyndaverk