HönnunarMars
HönnunarMars fer fram í níunda sinn dagana 23.- 26. mars 2017. Viðburðir hátíðarinnar eru skipulagðir af Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við íslenska hönnuði og arkitekta. Þjóðminjasafn Íslands tekur þátt í HönnunarMars. Í Safnahúsinu við Hverfisgötu sýna Þórunn Árnadóttir, Milla Snorrason og pólskir og íslenskir myndskreytar. Sigurður Oddsson sýnir í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu.
Safnahúsið við Hverfisgötu
Uxatindar
Hönnuður: Milla Snorrason
Sýningin verður opnuð 21.mars kl. 17
Milla Snorrason hefur fengið stúlkur úr Listaháskóla Íslands til liðs við sig sem munu sýna gjörning í Safnahúsinu á Hverfisgötu íklæddar flíkum úr nýjustu línu hönnuðarins
U X A T I N D A R. Gjörningurinn hefst kl. 15:00 laugardaginn 25. Mars. Línan í heild sinni verður til sýnis í Safnahúsinu á meðan á Hönnunarmars stendur og opnar þriðjudaginn 21. mars kl. 17:00.
Hönnuður Milla Snorrason, Hilda Gunnarsdóttir, sækir innblástur til Fjallabaks Nyrðra þar sem hún þræddi gönguleiðir síðla sumars 2016 ásamt fjórum vinkonum. Listneminn Ágústa Gunnarsdóttir var með í för og fékk það hlutverk að skissa upp göngugarpana í hinum ýmsu stellingum og notaði Hilda skissurnar í vinnslu mynsturs línunnar sem kemur í tveimur litum. Innblástur er einnig sóttur í snið 7. áratugarins og má finna gæðaefni eins og dýrindis silkiflauel og skoska ull í línunni.
https://www.facebook.com/events/1833808146886198/
Hljóðaform
Hönnuður: Þórunn Árnadóttir
Sýningin verður opnuð 21.mars kl. 17
Leikföng með rafmagnshljóðum eru nánast alltaf úr plasti, og framleidd í Kína. Í verkefninu „Shapes of Sounds“ gerir Þórunn tilraunir með að hanna nýjar umgjarðir úr íslenskum efnivið utan um hljóðkort úr ónýtum leikföngum. Formið og efnisvalið er ofureinfölduð túlkun á hljóðinu þar sem notuð eru hrein grunnform og hrá efni. Gestum gefst að prófa hlutina og kynna sér ferlið í gegnum skissur og hugleiðingar.
https://www.facebook.com/events/1833785816836815/
Gjuggíborg – Myndskreyttar bækur fyrir börn á pólsku og íslensku
Sýningin verður opnuð 21.mars kl. 17Á síðasta áratug eða svo hefur verið mikil gróska í útgáfu myndskreyttra barnabóka á Íslandi og í Póllandi. Myndskreytingar á sex íslenskum og 16 pólskum barnabókum sem þykja bera af verða til sýnis og til umfjöllunar en viðburðurinn skiptist í tvennt: Sýningu á myndskreytingum og vinnustofu fyrir börn og myndskreyta.
https://www.facebook.com/events/194747084343555/
Þjóðminjasafn Íslands
Rúnamerki
Hönnuður: Sigurður Oddsson (Siggi Odds)
Sýningin verður opnuð miðvikudaginn 22.mars kl. 16.
Í verkefninu er því velt upp í einskonar hliðstæðum veruleika hvernig þekktustu og fallegustu merki Íslandssögunnar gætu litið út ef við hefðum ekki tekið upp rómverska stafrófið og notuðumst enn við rúnaletur eins og það leit út fyrir 1000 árum.
Þannig lærum við að lesa og skrifa í rúnaletri út frá okkar ástsælustu vörumerkjum og heiðrum þennan menningararf sem hefur að mestu leyti dottið úr almennri þekkingu.
Í verkefninu eru nokkur af þekktustu merkjum íslandssögunnar endurteiknuð í rúnaletri og sett í samhengi við samtíma sinn í myndum.