Fyrirlestrar
  • Teikning: Daniel Bruun af skálatóftinni á Hofstöðum árið 1908. Mynd frá Nationalmuseet í Danmörku.

Árdagar íslenskrar fornleifafræði. Rannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit

Þriðjudaginn 26. janúar kl. 12 verður fyrirlestur og leiðsögn um sýninguna Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit. Hrönn Konráðsdóttir og Eva Kristín Dal, verkefnastjórar sýningarinnar, munu fjalla um rannsóknir á Hofstöðum á fyrrihluta 20. aldar. Þetta tímabil mætti nefna árdaga íslenskrar fornleifafræði en þá fóru fram fyrstu markvissu rannsóknirnar á fornminjum hér á landi.

Á Hofstöðum í Mývatnssveit er merkileg minjaheild sem spannar allt frá víkingaöld fram til okkar daga. Þar hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir, þær fyrstu í byrjun 20. aldar en viðamestar hafa þær verið síðustu þrjá áratugi. Grafinn var upp gríðarstór veisluskáli frá víkingaöld sem er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Þá var rannsakaður kirkjugarður á Hofstöðum sem í hvíldu einstaklingar sem tengdir voru fjölskylduböndum. Beinin veita áhugaverðar upplýsingar um líf og aðstæður fólksins.

Sýningin Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit er unnin í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands.

Til þess að hægt sé að halda nándarmörkum verður takmarkað sætaframboð í salnum. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Fyrirlestrinum verður einnig streymt í gegnum Teams livestream og vistaður á Youtube rás safnsins. 

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og ókeypis fyrir börn að 18 ára aldri. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Teikning: Daniel Bruun af skálatóftinni á Hofstöðum árið 1908. Mynd frá Nationalmuseet í Danmörku.