Fyrirlestrar

Hvað gekk manninum til? Gripasöfnun Pike Ward á Íslandi

Gripasöfnun Pike Ward á Íslandi

Þriðjudaginn 12. nóvember flytur Freyja Hlíðkvist Ómars- og Sesseljudóttir sérfræðingur í munasafni erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Verið öll velkomin.

Enski fiskkaupmaðurinn Pike Ward var vel þekktur á Íslandi í kringum aldamótin 1900. Hann dvaldi hér á landi nokkra mánuði á hverju ári um tuttugu ára skeið. Á þeim tíma safnaði hann hundruðum gripa, flutti þá með sér til Englands og hafði til prýðis á heimili sínu þar. Sum rými þakti hann bókstaflega í hólf og gólf með gripunum frá Íslandi og nokkrir þeirra bera þess merki.
Eftir hans dag fóru munirnir á safn í Exeter. Árið 1950 voru þeir svo gefnir til Þjóðminjasafns Íslands og þóttu þá ein veglegasta gjöf sem því hafði borist.

Í safni Pike Ward eru fjölbreytilegir gripir frá ýmsum tímum, allt frá hversdagslegum brúkshlutum til kirkjugripa. Hann hefur haft næmt auga fyrir fallegu handverki og átt auk þess nægt fé til að borga fyrir vandaða gripi.
Hluti af gripunum úr safni Pike Ward eru á sýningunni Með Ísland í farteskinu. Skyggnst verður í munasafn hans og vöngum velt yfir hvata hans til svo yfirgripsmikillar söfnunar íslenskra gripa.