Fyrirlestrar

Frestað: Hofstaðir - uppgröftur sumarið 2020

Þriðjudaginn 20. október kl. 12 verður hádegisfyrirlestur um uppgröftinn á Hofstöðum. Á Hofstöðum er merkileg minjaheild sem spannar allt frá víkingaöld fram til okkar daga. Þar hafa farið fram fornleifarannsóknir, þær fyrstu í byrjun 20. aldar en viðamestar hafa þær verið seinustu þrjá áratugi. 

Á Hofstöðum var grafinn upp gríðarstór veisluskáli frá víkingaöld sem er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Þá var grafinn upp kirkjugarður sem í hvíldu einstaklingar sem tengdir voru fjölskylduböndum. Beinin veita áhugaverðar upplýsingar um líf og aðstæður fólksins.

Í Bogasal stendur nú yfir sýningin Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit. Á sýningunni er leitast við að svara spurningum er varða landið og nýtingu þess, miðstöðina Hofstaði, daglegt líf, mataræði, fjölskylduna, miðaldir til 20. aldar og rannsóknasögu Hofstaða. Sýningin er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands ses. og Þjóðminjasafns Íslands.

Eftir fyrirlesturinn gefst gestum kostur á að ganga upp og skoða sýninguna.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Til þess að hægt sé að halda nándarmörkum verður takmarkað sætaframboð í salnum. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi.

Fyrirlesturinn er tekinn upp og verður birtur á Youtube rás Þjóðminjasafnsins.