Fyrirlestrar

Mannamyndasafnið: Stuttar frásagnir af fólki, myndum og gripum

  • 30.11.2021 Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Þegar unnið er að gerð nýrra sýninga kemur ýmisleg óvænt í ljós. Sýningin Mannamyndasafnið er engin undantekning þar á. Þriðjudaginn 30. nóvember kl. 12 mun Eva Kristín Dal, verkefnastjóri sýninga, velta upp fróðleiksmolum og segja sögur af nokkrum sýningargripanna. Oftar en ekki eru þetta upplýsingar sem rötuðu ekki inn í sýningartextann en varpa engu að síður skemmtilegu ljósi á viðfangsefnið. Fyrirlestrinum verður streymt hér á YouTube rás safnsins.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og ókeypis fyrir börn að 18 ára aldri. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Þjóðminjasafni Íslands.

Fyrirlesturinn er sjötti í röð hádegisfyrirlestra safnsins.

Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi. Grímuskylda er á safninu. Grímuskylda á ekki við um börn sem fædd eru 2006 og síðar. Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru 2016 eða síðar.

Ljósmyndasafni Íslands er safnheild sem ber heitið Mannamyndasafn. Í henni er að finna ólíkar gerðir mynda, þar á meðal málverk, ljósmyndir, útsaumsverk og höggmyndir. Breiddin er mikil, frá því að vera skyndimyndir yfir í að vera ómetanleg listaverk. Þær eiga það sameiginlegt að sýna fólk.

Á sýningunni er safnkostinum gerð skil í gegnum 34 þemu og ríflega 400 sýningargripi sem ná ýmist yfir myndefni eða gerð mynda. Þar má til dæmis skoða elstu mannamyndina sem þekkt er á Íslandi, ljósmyndir af þátttakendum í fyrstu íslensku fegurðarsamkeppninni og myndir af ýmsum hópum, gömlum og nýjum.

Mannamyndasafnið var stofnað árið 1908 og var tilgangur þess að safna myndum af öllum Íslendingum. Í því eru yfir 60.000 myndir sem ná yfir 400 ár. Þær hafa að mestu leyti verið gjafir frá einstaklingum og er enn í dag tekið við myndum í Mannamyndasafnið.

Verið öll velkomin.