Menningarnótt 2022

Viðburðir menningarnætur í og við Þjóðminjasafn Íslands tengjast allir víkingaöld á Íslandi. Sjá nánar undir Fornleifafræðingar spalla, Rammir víkingaleikar og handverk með Rimmugýgi og Vígfimi og vopnaburður á víkingaöld. Safnið er opið á Menningarnótt frá 10–17 og frítt inn. Verið öll velkomin.

Dagskrá

 kl. 11 – 17 -  Rammir víkingaleikar og handverk með Rimmugýgi 

kl. 14 – 16 -  Vígfimi og vopnaburður á víkingaöld 

kl. 14-16 -  Fornleifafræðingar spjalla - Úr mýri í málm  

kl. 14-16 -  Fornleifafræðingar spjalla - Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit  

Á grunnsýningunni Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár er Íslandssagan rakin í tímaröð frá landnámi til nútímans. Hægt er að ganga um sýninguna eftir Regnbogaþræðinum sem unninn var í samstarfi við Samtökin ´78. Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar.

Stofa er fyrir fjölskyldur, skólahópa og alla forvitna gesti. Þar má leika með leggi og kjálka og bóndabæ með búpeningi og búaliði. Þar eru einnig myndir til að lita og skemmtileg föndursmiðja. Í Stofu er nú örsýningin Drasl eða dýrgripir? með íslenskum umbúðum sem Andrés Johnson rakari og safnari í Ásbúð í Hafnarfirði hirti. Án hans áhuga á hönnun væri þessi gripaheild ekki til. Í tengslum við sýninguna er föndursmiðja í Stofu þar sem hægt er að lita, klippa, líma og móta sitt eigið listaverk úr notuðum umbúðum og blöðum og breyta þannig drasli í dýrgrip!

Ratleikirnir svo sem Safnabingó og Leitin að rúnaristunum eru tilvalið tæki fyrir fjölskyldur til skemmtimenntunar á safninu.

Kaffihús Þjóðminjasafnsins býður gesti og gangandi velkomna með veitingum sem meðal annars tengjast víkingaaldarþema dagsins.

Þjóðminjasafnið rekur safnbúð þar sem aðaláhersla er lögð á minjagripi sem endurspegla sýningar og safnkost. Úrval muna og leikfanga sem tengjast víkingaöld er til sölu í tilefni af þema dagsins.

Sérsýningar eru á fjórum stöðum á safninu, tvær þeirra tengjast þekkingu sem við höfum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar: Úr mýri í málm og Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit. Hinar tvær eru ljósmyndasýningarnar Í skugganum. Konur meðal frumkvöðla í ljósmyndun og Nicoline Weywadt sem báðar fjalla um konur sem ljósmyndara í fararbroddi á Íslandi og Norðurlöndunum. 


Menningarnótt