Starfsfólk Þjóðminjasafns Íslands tekur vel á móti fjölskyldum í vetrarfríi

Heimsókn í Þjóðminjasafnið er skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna og við bjóðum uppá margs konar leiðir til að upplifa sýningarnar okkar. Ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára.

Hægt er að ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Svo er hægt að horfa á myndskeið á margmiðlunarskjáum, uppgötva litríka, viðkvæma gripi í skúffum og hlusta á leikþætti um fullorðinn og barn frá mismunandi tímaskeiðum í Íslandssögunni. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Leiðsögn: Sverð, skjöldur og spjót!

Leiðsögn kl. 11. og kl. 14 dagana 17. og 18. febrúar.

22. febrúar er leiðsögn kl. 14.

Nú gefst fjölskyldum í vetrarfríi tækifæri til að uppgötva ólík vopn á Þjóðminjasafninu. Leiðsögnin tengir saman vopn eins og spjót, örvarodda, víkingasverð og atgeir og verjur eins og skjöld og hringabrynju. Ætli allir hafi átt vopn á víkingaöld? Hvernig vopn áttu Íslendingar á Sturlungaöld? Í lok heimsóknar er boðið til Stofu þar sem við tekur frjáls leikur. Stofa er aðstaða fyrir dægradvöl, þar sem eru leikföng, bækur, búningar, litir og pappír. Leiðsögnin tekur um 45 mínútur.

Skemmtiganga á eigin vegum með tón, lykt og lit. Hvernig líður tíminn á Þjóðminjasafni? Hvaða tón er þar að finna? Og hvaða lykt? Hvernig er að skoða umhverfið í gegnum litað spjald? Í þessari skemmtigöngu verður notast við ferðatösku með ýmsum munum sem virkja skilningarvitin á leiðinni í gegnum safnið. Töskurnar fást í móttöku safnsins.

Ratleikur og safnabingó

Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á líflegan hátt. Leikirnir henta allri fjölskyldunni og er sérstaklega gaman fyrir foreldra og börn að leysa þrautirnar saman. Hægt er að nálgast ratleikina í móttöku Þjóðminjasafnsins og eru viðfangsefnin margbreytileg. Nú eru komnir nýir ratleikir sem nefnast Leitin að rúnaristunum og Safnabingó.

Sýningar

Í safninu eru fjórar sérsýningar; Sraumnes - ljósmyndir eftir Marinó Thorlacius, Þar sem rósir spruttu í snjó - ljósmyndir eftir Vassilis Triantis, Hofstaðir - Saga úr jörðu sem fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit  og Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum. Allar þessar sýningar gefa gott tækifæri fyrir fjölskyldur til að fræðast og ræða saman um sögu Íslands.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.500 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið er opið alla daga frá kl. 10 - 17 nema mánudaga.

Verið öll velkomin og góða skemmtun!


Engin grein fannst.