Viðburðir framundan

Opnun hátíðarsýninga um Kirkjur Íslands

  • 24.11.2018, 14:00 - 17:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar laugardaginn 24. nóvember kl. 14. Sýningarnar eru hluti af hátíðardagskrá í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis.

Hátíðarsýningar Þjóðminjasafnsins verða opnaðar 24. nóvember kl. 14 og eru þær helgaðar kirkjum Íslands. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir opnar hátíðarsýningarnar.

Ávörp við opnun flytja Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, Poul Grinder-Hansen, frá Þjóðminjasafni Dana, Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sem opnar sýninguna. Spilmenn Ríkínís flytja tónlist við opnun.

Í Bogasal verður opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur. Á sýningunni er fjallað um kirkjugripi og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í hinni alþjóðlegu listasögu. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist á kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfu bókaflokksins um Kirkjur Íslands sem nú hefur komið út í 31 bindi. Ritröðin er gefin út í samstarfi við Biskupsstofu og Minjastofnun Íslands. Sýningin er unnin í samstarfi við kirkjur og menningarminjasöfn landsins sem lána gripi á sýninguna. 

Í Myndasal verður opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna. Kirkjur og kirkjugripir urðu þremur mönnum rannsóknarefni á 20. öld og allir skráðu þeir rannsóknir sínar með myndrænum hætti: Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Jón Helgason biskup og Þór Magnússon þjóðminjavörður. Úrval mynda þessara þriggja manna veita innsýn í íslenskar kirkjubyggingar og þann menningararf sem þær hafa að geyma.

Á Vegg verða sýndar myndir Heiðu Helgadóttur, ljósmyndara, af trúarlífi í samtíma. Titill sýningarinnar er NÆRandi.

Fyrr á árinu var opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum. Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. 

#fullveldisdagurinn #fullveldi1918