Viðburðir framundan

Velkomin í Þjóðminjasafnið í páskafríinu

  • 31.3.2021 - 3.4.2021, 10:00 - 17:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Verið velkomin í Þjóðminjasafn Íslands í páskafríinu. Opið er alla dagana nema páskadag og annan í páskum. Það er hægt að njóta sýninganna á fjölbreyttan máta eftir aldri og áhuga. Til dæmis má ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Í safninu eru fjórar sérsýningar; Spessi 1990 - 2020 - yfirlitssýning á verkum Spessa, Sigurþórs Hallbjörnssonar, Bakgarðar – með ljósmyndum Kristjáns Magnússonar og Hofstaðir. Saga úr jörðu - sem fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit. Í Horni er sýningin Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum. Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði. Einnig er uppi örsýning sem byggir á efni þáttanna Víkingaþrautin úr Stundinni okkar. Þar gefst gestum kost á að skoða gripina sem koma fyrir í þáttunum, spreyta sig við að ráða rúnir og máta búninga í anda víkingatímans.

Á grunnsýningunni eru gripir með rúnaristum og áletrunum. Í ratleik, sem gerður var í tilefni af Víkingaþrautinni, eru þessir sýningargripir leitaðir uppi. Ratleikinn má nálgast í móttöku safnsins. Í tengslum við ratleikinn má spreyta sig á gerð bandrúnar. Bandrúnir eru tvær eða fleiri rúnir sem er blandað saman í eitt tákn. Þær eru stundum notaðar til að tákna fyrstu stafina í nafni og þannig er hægt að merkja sér hluti. Allt efni í stimpil með bandrúninni þinni er til taks í Stofu.

Verið öll velkomin.

Í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða vegna Covid-19 faraldursins og þeirra samkomutakmarkana sem nú eru í gildi verður hámarksfjöldi gesta í Þjóðminjasafni Íslands 10 manns í hverju hólfi. Fjöldatakmarkanir eiga ekki við um börn fædd 2015 og síðar. Grímuskylda og tveggja metra reglan er í gildi á safninu.

Paskar-2021_1617114348245