Halldór Baldursson mætir Halldóri Péturssyni. Teiknismiðja fyrir börn og fjölskyldur 7.3.2021 14:00 - 15:00 Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Nafnarnir Halldór Baldursson og Halldór Pétursson eru þjóðkunnir teiknarar báðir tveir. Sá fyrrnefndi leiðbeinir börnum og fylgifiskum að teikna dýr og fólk, sveit og borg, eða annað sem viðstöddum blæs í brjóst í tengslum við sýningu á verkum Halldórs Péturssonar (1916-1977) sem stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafnsins til og með 14. mars. Sýningin nefnist Teiknað fyrir þjóðina – myndheimur Halldórs Péturssonar. Verið hjartanlega velkomin með börnin að skoða sýninguna og teikna undir handleiðslu eins reyndasta teiknara þjóðarinnar. Allt efni innifalið. Athugið ekki þarf að skrá sig fyrirfram á viðburðinn.

 

Leiðsögn: Unnar Örn sýningarstjóri 14.3.2021 14:00 - 14:45 Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Unnar Örn Auðarson, sýningarstjóri og listamaður fer með gesti um sýninguna Teiknað fyrir þjóðina – Myndheimur Halldórs Péturssonar á sunnudaginn 14. mars kl. 14. Þetta er jafnframt síðasti sýningadagurinn í Myndasal.

 

Fyrir alla muni í Þjóðminjasafni Íslands 21.3.2021 14:00 - 17:00 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Sunnudaginn 21. mars kl. 14-17 verða til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands nokkrir þeirra muna sem fjallað hefur verið um í sjónvarpsþáttunum Fyrir alla muni á RÚV. Stjórnendur þáttanna, Sigurður Pálmason og Viktoría Hermannsdóttir, ásamt Freyju Hlíðkvist Ó. Sesseljudóttur, sérfræðingi í safninu, munu spjalla við gesti og segja frá gripunum.

 

Sýningaopnun: Spessi 1990 - 2020 og Bakgarðar 27.3.2021 10:00 - 17:00 Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar á tveimur nýjum ljósmyndasýningum laugardaginn 27. mars. Spessi 1990 - 2020 og Bakgarðar, ljósmyndir eftir Kristján Magnússon. Sýningarnar verða opnar gestum frá kl. 10 til 17. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi. Hámarksfjöldi einstaklinga í hverju rými eru tíu manns. Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem eru fædd 2015 eða síðar. Verið öll velkomin. 

 

Velkomin í Þjóðminjasafnið í páskafríinu 31.3.2021 - 3.4.2021 10:00 - 17:00 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Verið velkomin í Þjóðminjasafn Íslands í páskafríinu. Opið er alla dagana nema páskadag og annan í páskum. Það er hægt að njóta sýninganna á fjölbreyttan máta eftir aldri og áhuga. Til dæmis má ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.