Viðburðir framundan

Fjallkonan. „Sér hún hátt og vítt um veg“ – hinsta hvíla konu frá 10. öld á Vestdalsheiði.

  • 22.1.2019, 12:00 - 12:45, Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Þriðjudaginn 22. janúar kl. 12 flytur Rannveig Þórhallsdóttir erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn ber heitið: Fjallkonan. „Sér hún hátt og vítt um veg“ – hinsta hvíla konu frá 10. öld á Vestdalsheiði. 

Rannveig Þórhallsdóttir flytur erindi sem byggt er á MA rannsókn hennar í fornleifafræði. Hún rannsakaði gripi og líkamsleifar „Fjallkonunnar“ svokölluðu, sem fundust við Afréttarskarð á Austurlandi í björgunaruppgreftri árið 2004 og skoðaði út frá síð-fræðilegum (e. post-disciplinary) aðferðum. Þá er vísbendingum fylgt og farið yfir „landamæri“ fræðigreina til að svara því af hvaða uppruna „Fjallkonan“ var, hvaða félagslega hlutverki hún gegndi og hvort um kuml væri að ræða. 

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að líklegt er að „Fjallkonan“ hafi ekki verið lögð í kuml þar sem engan manngerðan umbúnað var að finna á uppgraftarstað. Klæðnaður hennar virðist hefðbundinn miðað við búnað kvenna á víkingaöld. Mikill perlufjöldi sem fannst hjá henni gæti þó gefið hugleiðingum um völvu/seiðmann byr undir báða vængi. „Fjallkonan“ var 20–30 ára þegar hún lést og hún var ekki fædd á Íslandi. Gerðfræði skartgripa og ísótóparannsóknir sýna að hún virðist hafa verið uppi um miðja tíundu öld.

Rannveig Þórhallsdóttir lauk nýlega mastersprófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands undir leiðsögn Dr. Steinunnar Kristjánsdóttur. 

Rannveig er starfsmaður Fornleifafræðistofunnar á Austurlandi. Hún er einn af stofnendum rannsóknarsetursins Skálaness í Seyðisfirði, sem leggur áherslu á alþjóðlegt háskólasamstarf og vettvangs- og, þverfaglegar rannsóknir. Rannveig starfaði árin 2001-2005 sem safnstjóri Minjasafns Austurlands á Egilsstöðum. Hún starfaði einnig um tíma sem verktaki og fastráðinn þýðandi hjá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. 

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er öllum opinn. Verið öll velkomin.