Viðburðir framundan

Fyrirlestur: Vísnabókin

  • 17.11.2020, 12:00 - 13:00, Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor við Háskóla Íslands verður með hádegisfyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins þriðjudaginn 17. nóvember þar sem hún fjallar um sögu og gildi Vísnabókarinnar. Bókin hefur sérstöðu meðal íslenskra barnabóka og Anna Þorbjörg veltir upp spurningum um framtíð hennar í þeim ríka myndheimi sem nútímabörn alast upp við. 

Allt frá því að Vísnabókin kom fyrst út árið 1946, eða í nærri sjötíu og fimm ár, hefur hún notið mikilla vinsælda og hefur margsinnis verið endurútgefin, nú síðast á þessu ári. Myndir Halldórs Péturssonar eiga ríkan þátt í vinsældum bókarinnar og unnendur bókarinnar eiga sér þar flestir einhverja uppáhaldsmynd. Bókin varðveitir og miðlar hluta af menningararfi íslensku þjóðarinnar og sjálf er hún líka orðin hluti af þeim sama arfi. Vísnabókin býr enn yfir þeim galdri að sameina kynslóðir og þess er jafnan gætt að ungar fjölskyldur eignist þessa bók fyrir börnin sín.

Vísnabókinni eru gerð sérstök skil á sýningunni Teiknað fyrir þjóðina – Myndheimur Halldórs Péturssonar sem er í Myndasal. Eftir fyrirlesturinn er kjörið að fara um sýninguna sem er yfirlitssýning á verkum teiknarans Halldórs Péturssonar (1916 – 1977).  

 

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Til þess að hægt sé að halda nándarmörkum verður takmarkað sætaframboð í salnum. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Fyrirlesturinn er tekinn upp og verður birtur á Youtube rás Þjóðminjasafns Íslands.