Viðburðir framundan

Geðheilsa hinsegin ungmenna

  • 15.8.2019, 16:30 - 17:30, Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Erlendar rannsóknir sýna að geðheilsuvandi hinsegin ungmenna er mikill en rannsóknir hérlendis eru af skornum skammti. Sérfræðingar í geðheilsu hinsegin fólks halda erindi og ræða stöðuna hér á landi út frá sinni reynslu.

Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir lektor við HR, Dr. Berglind Gísladóttir lektor við HR og Guðrún Häsler sálfræðingur halda erindi og ræða stöðuna hér á landi út frá rannsóknum sínum og reynslu.

Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir er lektor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Rannsóknir hennar fjalla um geðheilsu, þ.á.m. þeirra sem eru hinsegin eða hafa upplifað áföll og ofbeldi. Hún hefur birt rannsóknir í erlendum fræðaritum um geðheilsu hinsegin þolenda ofbeldis, áhrif viðbragða annarra við frásögnum af kynferðisofbeldi og samfélagsleg inngrip gegn heimilisofbeldi.

Dr. Berglind Gísladóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknaráhugi hennar beinist aðallega að námslegum og félagslegum þáttum sem hafa áhrif á líðan og gengi nemenda í námi, bæði þáttum innan skóla og þáttum utan skóla. Þá hafa rannsóknir hennar einnig beinst að andlegri heilsu hinsegin ungmenna, námsárangri þeirra og líðan í skóla.

Guðrún Häsler er sálfræðingur og starfar sem ráðgjafi Samtakanna '78, ásamt því sem hún vinnur á Þroska og hegðunarstöð. Guðrún er með B.S. gráðu í sálfræði, M.A. í sálfræði og M.A í klínískri sálfræði, en hún starfar sem klínískur sálfræðingur. Hún hefur sérstakan áhuga á málefnum trans barna og hefur flutt fyrirlestra fyrir fagfólk þess efnis.

Frítt er á viðburðinn. Verið öll velkomin.

Fræðsluviðburðir á Hinsegin dögum 2019 eru haldnir í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Á Þjóðminjasafninu má finna Regnbogaþráðinn sem er hinsegin vegvísir í um sýninguna Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Í vegvísinum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi með það að markmiði að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar.

Þjóðminjasafn Íslands býður gestum á viðburðum Hinsegin daga á safninu aðgangsmiða á safnið með 25% afslætti eða á 1.500 kr. í stað 2.000 kr.