Viðburðir framundan
  • Anna Heiða Baldursdóttir fyrirlestur

Hádegisfyrirlestur: Hlutir í dánarbúsuppskriftum og safnkosti Þjóðminjasafnsins

  • 28.3.2023, 12:00 - 13:00, Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Anna Heiða Baldursdóttir doktor í sagnfræði, fjallar um möguleika tveggja umfangsmikilla heimildasafna fyrir rannsóknir; dánarbúsuppskriftir og rafræna gagnasafnið Sarp.

Anna Heiða varpar ljósi á eiginleika tveggja ólíkra heimildasafna (e. archives) og þýðingu þeirra fyrir rannsóknir í sagnfræði. Í fyrsta lagi eru dánarbúsuppskriftir sem ritaðar voru á 18. og 19. öld og varðveittar eru á Þjóðskjalasafni Íslands. Þar koma fyrir eigur 33.000 Íslendinga sem voru virtar til verðs af embættismönnum þessa tíma. Í öðru lagi er um að ræða þann hluta safnkosts Þjóðminjasafns Íslands sem samkvæmt rafrænum gagnagrunni safnsins, Sarpi, er frá 19. öld. Þar eru skráðir tæplega 3000 munir sem safnað hefur verið síðan Þjóðminjasafnið var stofnað árið 1863. Hvað einkennir þessi tvö umfangsmiklu heimildasöfn og hverjir eru möguleikarnir í notkun þeirra?

Hér má sjá fyrirlesturinn á Youtube rás safnsins:

https://www.youtube.com/watch?v=rXETtpE-C6o

Anna Heiða Baldursdóttir sinnti rannsóknum innan öndvegisverkefnisins Heimsins hnoss og varði doktorsritgerð sína, Hlutir úr fortíð: Eigur fólks og safngripir frá 19. öld, nýlega við Háskóla Íslands. Anna Heiða starfar sem sérfræðingur við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. 

Fyrirlesturinn tengist sýningunni Heimsins hnoss sem nú er í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Hér má kynna sér sýninguna.

Aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið kostar 2.500 kr. fyrir fullorðna og gildir í eitt ár en frítt er fyrir börn yngri en 18 ára. Aðgöngumiðinn gildir á allar sýningar, fyrirlestra og viðburði. Verið velkomin.