Viðburðir framundan

Listakonur veita leiðsögn um ljósmyndasýningar sínar

  • 24.8.2019, 14:00 - 15:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Í Myndasal og á Vegg Þjóðminjasafns Íslands standa yfir tvær grípandi ljósmyndasýningar eftir listakonurnar Agnieszka Sosnowska og Yrsu Roca Fannberg. Þær veita leiðsögn um sýningar sínar kl. 14. Yrsa byrjar og svo tekur Agnieszka við. Leiðsögn Yrsu fer fram á íslensku og Agnieszku á ensku. Verið öll velkomin.

Sýning Yrsu heitir Lífið fyrir umbreytinguna. Enn eimir eftir af gamla Íslandi. Ljósmyndir Yrsu Roca Fannberg veita innsýn í líf fólks sem lifir í einstökum samhljómi við dýr og náttúru. Þær sýna lífið í Árneshreppi á Ströndum rétt fyrir umbreytinguna sem virðist vera handan við hornið. Þess má geta að í sumar var frumsýnd heimildamynd eftir Yrsu um bændur sem bregða búi í Árneshreppi á Ströndum.

Sýning Agnieszka heitir Goðsögn um konu. Agnieszka Sosnowska flutti til Íslands fyrir 14 árum. Ljósmyndir hennar festa á filmu vegferð sem hún hvorki skipulagði né átti von á. Hún ljósmyndar sjálfa sig, nemendur sína, nýja fjölskyldumeðlimi og vini. Innblástur sækir hún til kvenlega kraftsins sem hún upplifir á Íslandi. Agnieszka hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir ljósmyndir sínar, bæði erlendis og hér á landi.