Viðburðir framundan

Listamannaspjall: Brot úr framtíð, síðasti sýningardagur

  • 10.11.2024, 15:00 - 17:00, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Verið velkomin á síðasta dag sýningarinnar Brot úr framtíð í Bogasal Þjóðminjasafnsins.

Þorgerður Ólafsdóttir myndlistarkona verður á staðnum og tekur á móti gestum milli 15:00 – 17:00.

Ókeypis er inn á safnið fyrir gesti sýningarinnar á þessum tíma.

Sýningin Brot úr framtíð tekur saman myndlistarverkefni og listrannsókn Þorgerðar þar sem hún veltir fyrir sér fyrirbærum tengdum mannöld og hugmyndum um menningar- og náttúruarf. Á sýningunni má sjá listaverk og ólíka fundna muni úr náttúrunni, stóra og smáa, sem eru samofnir sögu mannsins og áhrifa hans sem ná langt út fyrir himinhvolf jarðarinnar.

Verkefnið má rekja aftur til ársins 2014 þegar Þorgerður tók þátt í vettvangsferð og aðstoðaði Fornleifastofnun Íslands við skráningu muna sem fundust við fornleifarannsókn í Mývatnssveit. Þar fékk hún í hendurnar lítið rautt plastbrot með óræða sögu sem varð upphafið að samstarfi hennar við Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin spannar því um tíu ára langt ferli þar sem myndlistarkonan hefur safnað óræðum gripum sem snúið er að ná utan um.

Brot úr framtíð er sýning á vegum Þjóðminjasafns Íslands og er unnin í samtali við hönnuðinn Garðar Eyjólfsson og Þóru Pétursdóttur sem fer fyrir rannsóknarverkefninu Relics of Nature við Háskólann í Osló.

Í verkum sínum skoðar Þorgerður iðulega hluti sem eru samofnir skilningi okkar og sambandi við náttúruna á tímum mikillar vitundarvakningar. Undir formerkjum Studio Eyjolfsson hefur Garðar einblínt á betrumbætingu og nýtingu staðbundins hráefnis í vöruhönnun og stundað rannsóknir sem hverfast um hönnunarskáldskap.

Myndlistarkona & sýningarhöfundur: Þorgerður Ólafsdóttir
Sýningarhönnuður: Garðar Eyjólfsson
Sýningarnefnd: Bryndís Erla Hjálmarsdóttir, Kristján Mímisson, Þóra Pétursdóttir

Missið ekki af þessari einstöku sýningu. Við hlökkum til að sjá ykkur.

Listamannaspjall-Thorgerdur-Olafsdottir