Viðburðir framundan

Menningarnótt í Safnahúsinu

  • 24.8.2019, 10:00 - 19:00, Safnahúsið við Hverfisgötu

Í Safnahúsinu við Hverfisgötu verður opið frá kl. 10 - 19. Verið öll velkomin.

14 - 16 Listasmiðja - Kynjaskepnur og furðuverur

Í Safnahúsinu leynast ýmsar kynjaverur og þjóðsagnapersónur sem hafa verið innblástur listafólks í gegnum aldirnar. Í listasmiðjunni skoðum við þessar verur og gerum tilraunir með okkar eigin kynjaskepnusköpun. Smiðjustjóri er Unnur Mjöll Leifsdóttir, myndlistarkona. Smiðjan verður opin milli klukkan 14:00 og 16:00. Efni og innblástur á staðnum. Verið öll velkomin.

Óravíddir - ljósmyndasamkeppni

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum efnir til laufléttrar ljósmyndasamkeppni í tilefni af Menningarnótt 2019 . Keppt er í þremur flokkum þar sem miserfið ljósmyndamótíf tengd íslenskum orðaforða verða lögð fyrir keppendur. Öllum er velkomið að taka þátt í keppninni. Verðlaun verða veitt fyrir hvern flokk: bækur og árskort í Þjóðminjasafn Íslands. 
Árnastofnun áskilur sér rétt til að birta ljósmyndirnar, sem berast í keppnina, á vefsíðum sínum og samfélagsmiðlum. Keppnin hefst síðdegis þriðjudaginn 21. ágúst og lýkur á miðnætti á menningarnótt.

Upplýsingar um keppnina má finna hér á heimasíðu Árnastofnunar.

Sýningar

Sjónarhorn er grunnsýning á sjónrænum menningararfi Íslendinga en þar eru sýnd verk úr safneign Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar. Þjóðminjasafnið sér um rekstur hússins.

Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi 

Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi er innsetning á myndrænni birtingu íslensks orðaforða í þrívídd sem unnin er upp úr Íslensku orðaneti eftir Jón Hilmar Jónsson.

Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen

Einn af kjörgripum Listasafns Íslands er höggmyndin Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen (1770–1844). Thorvaldsen, sem var af íslenskum ættum, var einn þekktasti listamaður Evrópu um sína daga og talinn einn helsti fulltrúi nýklassíska stílsins í höggmyndalist. Frummyndina að Ganýmedes gerði Thorvaldsen í Róm árið 1804 og er marmaramyndin sem nú er sýnd í Safnahúsinu meðal elstu verka í safneign Listasafns Íslands og eina höggmyndin sem safnið á eftir Thorvaldsen.

Fuglaratleikur - Fuglar inni og úti

Ratleikur á Þjóðminjasafni Íslands og Safnahúsinu við Hverfisgötu með viðkomu við Tjörnina.

Í þessum leik eru skoðaðir fuglar inni og úti; uppstoppaðir fuglar, fuglabeinagrind, lifandi fuglar og útskornir fuglar. Ratleikinn má nálgast í móttöku Safnahússins við Hverfisgötu og Þjóðminjasafnsins á Suðurgötu. Ratleikinn þarf ekki að leysa í neinni ákveðinni röð.

Fróðildisferðalag í Safnahúsinu

Barnafjölskyldur geta fundið, á ferð sinni um sýninguna Sjónarhorn, ýmsa staði þar sem má leika, snerta og rannsaka. Þessir staðir eru vaktaðir af Fróðildinu, litilli vængjaðri veru sem hvetur börn til að staldra við.