Viðburðir framundan

Sýningaopnun: Teiknað fyrir þjóðina og Tónlist, dans og tíska

  • 12.9.2020, 10:00 - 17:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Laugardaginn 12. september verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Þjóðminjasafni Íslands. Teiknað fyrir þjóðina. Myndheimur Halldórs Péturssonar og Tónlist, dans og tíska, ljósmyndir eftir Vigfús Sigurgeirsson. Vegna aðstæðna verður ekki formleg opnun heldur bjóðum við gestum ókeypis aðgang á fyrsta degi sýninganna. Verið öll velkomin.

Teiknað fyrir þjóðina - Myndheimur Halldórs Péturssonar.

Fáir hafa teiknað sig eins djúpt inni í hjarta þjóðarinnar og listamaðurinn Halldór Pétursson (1916-1977). Á blómatíma hans sem teygði sig yfir marga áratugi voru verk hans alltumlykjandi í íslensku samfélagi. Hann myndskreytti fjöldann allan af bókum, teiknaði forsíður vinsælla tímarita, vann frímerki og peningaseðla og teiknaði andlitsmyndir.
Borgin og sveitin, dýrin og mannfólkið teiknaði Halldór af mikill ástríðu og innsæi. Hann skóp myndheim sem talaði beint inni í hjarta þjóðarinnar. Heim sem var fullur af sterkum og litríkum persónum og oftar en ekki litaður gamansemi og endurliti til fortíðar. Samtímamenn hans þekktu best hestamyndir hans sem og skopteikningar í tímaritinu Speglinum. Langlífasta verk hans er sennilega teikningar við kvæði Vísnabókarinnar sem kom fyrst út árið 1946 og er ennþá fáanleg. Halldór lærði í Danmörku og Bandaríkjunum og var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara.
Á þessari yfirlitssýningu á verkum Halldórs má glöggt sjá fjölhæfni hans sem teiknara en þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka. Árið 2017 færðu börn Halldórs Þjóðminjasafni til varðveislu heildarsafn teikninga föður síns. Stór hluti verkanna á sýningunni koma úr þeirri safneign en eins eru sýnd verk fengin að láni frá fjölmörgum stofnunum hér á landi. Sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.

Tónlist, dans og tíska

Andrúm menningarlífsins í Reykjavík kemur sterkt fram í sérvöldum ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar (1900 - 1984) ljósmyndara frá árum seinni heimstyrjaldarinnar. Þar má sjá dansmeyjar og tónlistarmenn í bland við einstakar myndir af tískusýningu á Hótel Borg. Glæsileiki og fágun eru alsráðandi í myndatökunum.

Vigfús hafði á 4. áratugnum heimsótt Þýskaland þar sem hann kynntist kvikmyndagerð en öðlaðist líka nýja sýn í ljósmyndun. Þannig gætir áhrifa þýsks expressionisma í ljósmyndum hans þar sem sterkir skuggar og ljós leika stórt hlutverk og auka hrifnæmi verkanna.

Vigfús var einn allra þekktasti ljósmyndari og kvikmyndagerðamaður Íslands á fyrri hluta 20. aldar.