Viðburðir framundan

Sýningaopnun: Með Ísland í farteskinu og Lygasögur

  • 7.9.2019, 14:00 - 16:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar á tveimur sýningum í Myndasal og á Vegg. Verið öll velkomin.

Með Ísland í farteskinu
Ljósmyndir, úrklippur og munir úr fórum Pike Ward

Myndasalur

Englendingurinn Pike Ward var kunnur maður á Íslandi um aldamótin 1900. Hann gerði um tíma út frá Hafnarfirði en ferðaðist einnig um landið og keypti fisk til útflutnings. Pike Ward kenndi Íslendingum að nýta minni fisk og staðgreiddi með peningum sem var nýlunda hér á landi. Smáfiskurinn var við hann kenndur og nefndur Vorðfiskur eða Vorðari.

Ward var áhugaljósmyndari og tók myndir af daglegu lífi og fáförnum slóðum áður en Íslendingar hófu að taka myndir af áhugamennsku. Í því felst sérstaða mynda hans. Heildarsafn ljósmynda Ward frá Íslandi, bæði í úrklippubókunum, albúmi og lausum stereoskópmyndum telur rúmlega 1500 myndir. Langdvalir Ward hér á landi leiddu til þess að hann hóf að safna margvíslegum gripum sem voru einkennandi fyrir Ísland. Alls eru nú 379 gripir úr hans eigu í vörslu safnsins.

Úrval ljósmynda, úrklippa og gripa úr fórum Pike Ward er nú til sýnis í Myndasal Þjóðminjasafnsins.

Lygasögur

Veggur

Lygasögur er heitið á dagbók Pike Ward, ensks fiskkaupmanns sem í upphafi 20. aldar var nefndur ”frægasti maður Íslands”, en féll í gleymsku skömmu síðar.

Fyrri hluta árs 2019 ferðaðist lista- og kvikmyndagerðamaðurinn Chris Paul Daniels um Ísland til að feta í fótspor Pike Ward og festi ferðalagið á filmu. Lygasögur Ward ásamt úrklippubókum hans eru útgangspunktur Daniels til þess að kanna arfleið Ward. Um leið er kvikmyndin hans eigin upplifun þar sem hann fléttar saman sýn tveggja Englendinga á Ísland með einnar aldar millibili; hann gaumgæfir frásagnargildi mynda þeirra beggja út frá sjónarhóli áhorfanda og ferðalangs, upprunnum í sama landslagi og skrásettum með sömu tækni en tengdum sitt hvorum tímanum.

Verkið, sem þekur þrjá skjái, er framleitt af Einkofi Production. Tónlistina samdi Graham Massey (808 State, Massonix).

Sýningarnar standa yfir til 12. janúar 2020.