Viðburðir framundan

Þjóðbúningadagur í Safnahúsinu

  • 10.3.2019, 14:00 - 16:00, Safnahúsið við Hverfisgötu

Á þjóðbúningadeginum er almenningur hvattur til að draga fram þjóðbúninga af öllu tagi, klæðast þeim, sýna sig og sjá aðra. Um er að ræða kjörið tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér íslenska þjóðbúninginn. Aðgangur er ókeypis fyrir þau sem mæta á þjóðbúningi og er fólk af erlendum uppruna sérstaklega hvatt til að mæta á þjóðbúningi síns heimalands.

kl. 14 – 16 Þjóðbúningadagur -  Aðgangur ókeypis fyrir þau sem mæta á búningi.

kl. 14.00 – Margrét Valdimarsdóttir formaður Heimilisiðnaðarfélagsins segir í máli og myndum frá góðu dæmi um þjóðbúninga sem komist hafa út úr skápnum og í brúk. Við sögu koma m.a. pappakassar, ruslapokar og biskupsfrú.

kl. 14.15 - Guðrún Hildur Rosenkjær í Annríki segir frá rannsóknarverkefni og endurgerð á þremur prjónuðum peysum frá 19. öld. Peysurnar verða til sýnis.

kl. 14.30 - Félagar í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna dans og fá jafnvel gesti með sér í dansinn.

kl. 15.00 - Leiðsögn um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.

Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Annríki - þjóðbúninga og skart, Þjóðdansafélag Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands boða til samkomunnar.

Frá kl. 11 til 13 býður Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Þjóðminjasafnið fólki að koma með þjóðbúninga og búningahluta til skoðunar og mátunar. Sérfræðingar verða á staðnum til ráðgjafar og ráðlegginga og gert er ráð fyrir aðstöðu til mátunar.