Viðburðir framundan

Þúfur sem segja sögu – ný sýn á íslenskar miðaldir

  • 7.4.2017, 17:00

Fyrirlestur og bókarkynning í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals mun Árni Daníel Júlíusson flytja fyrirlestur sem tengist efni hennar. Fyrirlesturinn hefst kl. 17 föstudaginn 7. apríl í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Titillinn á fyrirlestrinum vísar í þúfur sem ber stundum fyrir augu þeirra sem ganga um sveitir landsins. Þær reynast stundum, þegar betur er að gáð, segja sögu sem aðrar heimildir steinþegja um. Þúfurnar eru þá leifar af fornbýlum, gömlum eyðibýlum sem voru í byggð á miðöldum en hafa verið í eyði í margar aldir. Þarna bjó fólk með skepnur sínar og bú, oft öldum saman, en engar samtíma ritheimildir greina frá því hvað þessi býli hétu eða hvaða fólk bjó þar, átti þar ævi sína, eignaðist börn og buru. Slíkar byggðarleifar er að finna mjög víða í sveitum landsins, en rannsóknir á þeim hafa verið fremur takmarkaðar. Á undanförnum árum hefur athyglin æ meira beinst að þessum leifum. Í Svarfaðardal er til að mynda að finna leifar af um 60 fornbýlum af þessu tagi. Býli í Svarfaðardal í byggð á síðari öldum eru um 70 talsins, þannig að hlutfallslega er fjöldi fornbýlanna mjög mikill, nærri eitt fornbýli á hvert nútímabýli. Hlutfallið er svipað í Hörgárdal, Skagafirði og víðar þar sem þessar fornu rústir hafa verið kannaðar. Fátt er vitað um hversu lengi þessi býli voru í byggð, hvenær þau byggðust og hvenær þau fóru í eyði. Rannsóknir eru lengst komnar í Skagafirði, þar sem athuganir á fornbýlum benda til þess að mörg þeirra hafi verið í byggð á 11.-14. öld. Það hlýtur að teljast brýnt að fá betri hugmynd um þessa byggð, því hér virðist heill kafli úr miðaldasögu Íslands vera nánast ókannaður. Rannsóknir á þessum fornbýlum gætu birt alveg nýja sýn á íslenskar miðaldir.

Árni Daníel gegnir rannsóknarstöðu dr. Kristjáns Eldjárns í Þjóðminjasafni Íslands. Bók hans Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals kom út í desember 2016 á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Forlagsins þegar 100 voru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, fyrrum forseta Íslands og þjóðminjavarðar.

Af þessu tilefni verður bókin Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals á tilboðsverði í safnbúð Þjóðminjasafns Íslands.

Að loknum fyrirlestri verður boðið upp á léttar veitingar. Allir velkomnir.

Þjóðminjasafn Íslands og Forlagið.