Ekki er allt sem sýnist: fólksflutningar, landnám og mikilvægi sjávarauðlinda á víkingaöld.
Spennandi fyrirlestrar sem varpa nýju ljósi á mótun íslensks samfélags. Þríeykið Bergsveinn Birgisson, Morten Ramstad og Lísabet Guðmundsdóttir segja frá rannsóknum sínum á fornminjum í Noregi og á Íslandi, búferlaflutningum, landnámi og sjóferðum á norðurslóðum á víkingaöld.
Rannsóknir á landnámsbyggð á Íslandi hafa lengst af einblínt á landbúnaðaruppbyggingu en rannsóknir fyrirlesara á málþinginu draga upp aðra og að mörgu leyti óvænta mynd. Þær afhjúpa mikilvægi gjöfulla strandsvæða og sjávarauðlinda. Veiðar á fiski, hvölum, fuglum og sel voru lífsnauðsynlegar lífsafkomu fólks á víkingaöld sem myndaði viðskipta- og tengslanet milli samfélaga á norðurslóð.
Bergsveinn, Morten og Lísabet stunduðu víðtækar fornleifarannsóknir á Ströndum á vestfjörðum og á Hjartsey í Noregi á árunum 2018-2023. Niðurstöðurnar ögra hefðbundnum áherslum á búfjárrækt og landbúnað og varpa ljósi á mikilvægi sjávar og strandar í lífsafkomu fólks á víkingaöld.
Erindunum sem flutt verða er ætlað að víkka sjóndeildarhringinn og dýpka skilning á landnámi og fólksflutningum þessa tíma. Fyrirlesarar munu einnig leggja áherslu á mikilvægi sjávarauðlinda á okkar dögum, áhrifum loftslangsbreytinga á þær og hversu brýnt er að vernda sameiginlegan menningararf okkar fyrir loftslagsbreytingum.
Ekki missa af einstöku tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og fá nýja sýn á víkingaöldina, landnámið og arfleifð þeirra.
Myndir frá fornleifarannsóknunum: