Yngsta stig: Þjóðsögur
Heimsóknin hentar öllum árgöngum á yngsta stigi. Lögð er áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi og sögur.
Smellið hér til að bóka heimsókn.
Heimsókn á Þjóðminjasafnið getur verið ævintýraleg, sérstaklega ef leitað er að gripum sem tengjast þjóðsögum um tröll, huldufólk, útilegumenn og drauga.
Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni
Gagnlegt getur verið að undirbúa heimsókn í safnið með því að lesa, ræða og vinna með sögur, munnmæli, málshætti og fleira sem tengist íslenskri munnlegri geymd.
Hæfniviðmið og menntagildi
Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:
1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.
2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.
3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).
Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið íslensku og samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í tengslum við heimsóknina:
Við lok 4. bekkjar getur nemandi;
- lesið ævintýri, sögur og ljóð ætluð börnum,
- sagt frá eftirminnilegum atburði og lýst ákveðnu fyrirbæri, endursagt efni sem hlustað hefur verið á eða lesið,
- hlustað og horft með athygli á upplestur, leikið efni, ljóð og söngva og greint frá upplifun sinni,
- nefnt dæmi um einkenni og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu, sögu og menningar,
- rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi,
- bent á dæmi um hvernig sagan birtist í munum og minningum.
Fyrirkomulag heimsóknar
Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Börnin mega fara úr skóm ef þau koma við opnun safnsins og þurrt er úti. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins og segir valdar þjóðsögur. Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn. Heimsóknin tekur um klukkustund.