Listi yfir hús í safninu
  • Sómastaðir

Sómastaðir við Reyðarfjörð

  • Frá 1. júní til 31. ágúst, er opið á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 14-16.

Á Sómastöðum er nú gamalt steinhús sem Hans Jakob Beck útvegsbóndi byggði við torfbæinn þar árið 1875. Húsið er opið almenningi þriðjudaga og fimmtudaga milli klukkan 14 og 16, frá 1. júní - 31. ágúst.

SómastaðirSérstaða þess felst einkum í byggingatækninni en útveggir eru hlaðnir úr lítt tilhöggnu grágrýti sem er bundið er saman með smiðjumó, einni tegund jökulleirs. Ekki munu varðveitt önnur dæmi um þessa tækni í byggingum hér á landi.

Efri hluti gaflveggja hússins, þ.e. bjórinn, er úr timbri, og klæddur listaþili. Eikarstokkar eru yfir gluggum. Að utanmáli er húsið 5,0 m breitt og 7,8 m langt. Inn af dyrum er forstofa með stiga upp í portbyggt ris og niður í steinhlaðinn kjallara sem er eitt rými. Á jarðhæðinni er stofa, klædd sléttum plötum og loft sem er plötuklætt milli bita.

Hans Jakob fæddist á Eskifirði 1838, komin af verslunarfólki í báðar ættir. Faðir hans var danski verslunarmaðurinn Christen N. Beck á Eskifirði, en móðir María Elísabet, dóttir Richards enska Longs verslunarstjóra hjá Kyhn á Eskifriði. Hans Jakob var tvíkvæntur og hóf búskap á Sómastöðum árið 1872 með fyrri konu sinni, Steinunni Pálsdóttur (1847-1897) frá Karlskála. Steinhúsið byggði hann þremur árum síðar. Með Steinunni eignaðist Jakob 13 börn en hún lést 1897. Síðar kvæntist hann Mekkín Jónsdóttur (1883-1974) frá Vöðlum í Vöðlavík og áttu þau saman 10 börn.

Einnig var reist portbyggt timburhús við vesturstafn steinhússins og var innangengt á milli húsanna á báðum hæðum. Timburviðbyggingin var seinna rifin og minna timburhús byggt í stað hennar. Steinsteypt íbúðarhús var byggt fyrir norðan steinhúsið árið 1950 og um það leyti stóð inngönguskúr úr timbri við vesturgafl steinhússins. Skúrinn skemmdist þegar bifreið var ekið inn í hann og var rifinn eftir það, en þjóðvegurinn lá á þeim tíma nánast meðfram framhlið hússins.

Gamli torfbærinn sem steinhúsið var upprunalega byggt er nú horfinn en byggingasaga Sómastaða er dæmi um hvernig torfhús voru löguð að efnum og aðstæðum hverju sinni. Á síðustu skeiðum íslenska torfbæjarins voru stundum byggð inn í hann steinhús eða timburhús, svokölluð framhús.

Árið 1988 komst steinhúsið á Sómastöðum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands sem stóð fyrir allnokkrum viðgerðum á því næstu árin. Voru þá meðal annars þakklæðning, gaflhlöð og gluggar færð í upprunalegt horf. Umsjón með verkinu hafði Hjörleifur Stefánsson arkitekt en Geir Hólm smiður annaðist framkvæmdir. 

Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér.