Rannsóknir og þróun

Rannsóknir og þróun

Rannsókna- og þróunarsvið hefur umsjón með rannsóknaverkefnum sem unnin eru innan Þjóðminjasafnsins og kemur að fræðilegri útgáfu á niðurstöðum þeirra. Meðal verkefna sviðsins er efling háskólasamstarfs og eftirfylgni með samstarfssamningi við Háskóla Íslands. Þá heyrir rannsóknastaða tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns undir sviðið, þar sem leitast er við að sinna rannsóknum á þeim fræðasviðum sem safnið tengist. 

Á rannsókna- og þróunarsviði starfa varðveislustjóri og skráningarstjóri sem sinna margvíslegum verkefnum þvert á safnkost Þjóðminjasafnsins. Einnig er þar unnið að eflingu menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns veitir mikilvæga stoðþjónustu fyrir sérfræðinga safnsins og fræðimenn ásamt því að varðveita öll gögn fornleifarannsókna sem skilað er inn til Þjóðminjasafns í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012.

Þá hefur sviðið umsjón með stefnumótun, gæðamálum, mótun verkferla og útgáfu handbóka er tengjast lagalegu hlutverki safnsins.

Sérfræðingar rannsókna- og þróunarsviðs hafa aðsetur víða í Þjóðminjasafninu: í Setbergi, í Vesturvör 16-20 og á Tjarnarvöllum 11.