Laus störf

Rannsóknarstaða í nafni dr. Kristjáns Eldjárns

8.10.2017

Við Þjóðminjasafn Íslands er sérstök rannsóknarstaða tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands, sbr. 3. gr. a. laga um Þjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011.

Í reglugerð nr. 896/2006 segir: "Staðan er ætluð fræðimönnum, er sinna rannsóknum á sviði íslenskrar menningarsögu sem fellur undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands.“ Rannsóknaverkefnum sem unnið er að í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns er ætlað að efla rannsóknastarfsemi Þjóðminjasafns Íslands. Við ráðningu í stöðuna er m.a. tekið mið af rannsóknastefnu Þjóðminjasafnsins og stöðu þess sem háskólastofnunar. Til greina kemur að tengja sjálfstæða rannsókn við stór rannsóknaverkefni sem þegar er unnið eða hefur verið unnið að innan safnsins. 

Staðan er auglýst til eins árs. Fræðimaður skal senda inn umsókn, þar sem verkefnið er vandlega skilgreint og hvernig það verði til að efla menningarsögulegar rannsóknir. Verkefnið skal skilgreint sem eins árs verkefni. 

Verkefni, eins og það er afmarkað, lýkur með formlegum verklokum að ráðningartíma liðnum. Stefnt skal að því að niðurstöður rannsókna verði birtar á viðurkenndum fræðilegum vettvangi eftir verklok en auk þess skulu þær kynntar með fyrirlestri, sýningu eða öðrum hætti innan Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknarniðurstöður skulu jafnframt varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands.

Fræðimaður sem gegnir rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns hefur aðstöðu hjá viðeigandi starfsstöð innan Þjóðminjasafns Íslands í samræmi við rannsóknarverkefnið. Fræðimaður skal leggja sitt af mörkum til að efla rannsóknarstarf safnsins og taka þátt í að veita nýjum straumum inn í fræðilega umræðu. 

Í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 896/2006 ákvarðar Þjóðminjavörður um launakjör fræðimannsins, innan marka kjarasamninga og fjárheimilda. 

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar 2020. Umsókn skulu fylgja yfirlit og greinargóðar upplýsingar um menntun og reynslu af fræðistörfum umsækjenda ásamt verkefnislýsingu og þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Sótt er um starfið hér.

Nánari upplýsingar veitir Hildur Halldórsdóttir mannauðsstjóri í síma 530-2239, netfang: hildur@thjodminjasafn.is.

Við ráðningar í störf er tekið mið af jafnréttisáætlun stofnunarinnar. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.

Þjóðminjasafn Íslands er vísinda- og þjónustustofnun og höfuðsafn á sviði menningarminja og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu. Hlutverk þess er að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar. Þjóðminjasafn Íslands starfar á grundvelli laga um Þjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011, safnalaga nr. 141/2011 og laga um menningarminjar nr. 80/2012.