Laus störf

Þjóðminjasafn Íslands leitar að öflugum stjórnanda

Sviðsstjóri kjarnasviðs hjá Þjóðminjasafni Íslands

24.9.2020

Þjóðminjasafn Íslands auglýsir laust til umsóknar starf sviðsstjóra kjarnasviðs muna og minja. Leitað er að öflugum stjórnanda til þess að leiða faglegt starf kjarnasviðs Þjóðminjasafns Íslands þar sem reynir á samskiptahæfni, frumkvæði, stjórnun verkefna og forystuhæfileika. Á kjarnasviði er unnið að faglegu safnastarfi og þjóðminjavörslu þ.e. varðveislu, rannsóknum og miðlun þjóðminja og safnkosts. Kjarnasvið endurspeglar lögbundið hlutverk Þjóðminjasafns Íslands.

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og starfar á grundvelli laga um Þjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011, safnalaga nr. 141/2011 og laga um menningarminjar nr. 80/2012. Þjóðminjasafn Íslands starfar í almannaþágu og er hlutverk þess að stuðla sem best að varðveislu menningarminja á landsvísu, þekkingarsköpun og fjölbreyttri fræðslu um menningarsögu Íslands.

Ábyrgð og verksvið:

Sviðsstjóri stýrir faglegu starfi kjarnasviðs og er ábyrgur gagnvart þjóðminjaverði. Sviðsstjóri ber ábyrgð á að starfsemi sviðsins sé í samræmi við heildarmarkmið og áherslur stofnunarinnar almennt.

Sviðsstjóri tekur þátt í áætlunargerð og stefnumótun um framþróun starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og á sæti í stjórnendateymi stofnunarinnar. Sviðsstjóri stjórnar daglegri starfsemi sviðsins, faglegum áherslum og hefur yfirsýn yfir verkefni sviðsins í heild sinni, m.a. söfnun, skráningu, rannsóknastarfsemi, varðveislu, forvörslu og miðlun. Sviðsstjóri ber ábyrgð á samskiptum við samstarfsaðila almennt, m.a. stofnanir, háskóla og aðila á fagsviðinu hérlendis sem erlendis. Sviðsstjóri starfar með þjóðminjaverði að faglegum málefnum á sviði þjóðminjavörslu og safnastarfs.

Menntunar- og hæfniskröfur:

- Háskólamenntun sem nýtist í starfi, meistaragráða skilyrði.
- Þekking og reynsla af stjórnunarstörfum skilyrði.
- Þekking og reynsla á fagsviði safnastarfs æskileg.
- Reynsla af verkefnastjórnun æskileg.
- Reynsla af gæðamálum æskileg.
- Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu æskileg.
- Leiðtogafærni, lipurð í mannlegum samskiptum og jákvætt viðmót.
- Góð almenn tölvukunnátta.
- Frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð.
- Gott vald á framsetningu efnis í töluðu og rituðu máli á íslensku og ensku. Kunnátta í Norðurlandamáli er kostur.

Um fullt starf er að ræða. Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Fræðagarður hafa gert.

Starfsemi Þjóðminjasafns Íslands er á landsvísu og eru starfsstöðvar þess í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Starfsstöð sviðsstjóra kjarnasviðs er á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði.

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 2. nóvember 2020. Sótt er um starfið hér. Umsókn skulu fylgja yfirlit og greinargóðar upplýsingar um störf umsækjenda og menntun, afrit af prófskírteinum ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Nánari upplýsingar veitir Hildur Halldórsdóttir mannauðsstjóri (hildur@thjodminjasafn.is) í síma 864-6186 og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í síma 861-2200 (margret@thjodminjasafn.is).

Við ráðningar í störf er tekið mið af jafnréttisáætlun stofnunarinnar. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.