Fræðslupakkar

Líf og leikir barna áður fyrr

 Kennsluáætlun

Kennsluáætlun.pdf

Fræðslupakkinn er um líf og leiki barna áður fyrr. Hann má nota í samfélagsfræðikennslu, til stuðnings við umræður um leiki barna áður fyrr, en líka um hlutskipti barna, verkaskiptingu, híbýlahætti og vinnuhörku. Upplagt er einnig að nota fræðslupakkann í þverfaglegri kennslu með til dæmis listgreinum eða íslensku.

Börn hafa í gegn um aldirnar þurft að vinna mismikið og leikur hefur verið stundaður meðfram önnum dagsins. Til að byrja með er til dæmis hægt að hlusta á hljóðskrár þar sem börn segja frá lífi sínu en þær eru af grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands. Í einni þeirra segir Helga dóttir Jóns prentara á Hólum frá því þegar hún fékk að gjöf útskorinn hest frá bróður sínum Brandi og hún fékk að leika sér við hin börnin í barnabaðstofunni. 

Tillögur að umræðupunktum:
Hvað finnst þér um leiki?
Til hvers eru leikir?
Er mikilvægt að leika sér?
Hvernig eru skemmtilegustu leikirnir?
Þarf leikföng til að leika sér?
Leika allir sér?
Hver er munurinn á íþróttum og leikjum?
Eiga nemendur einhver heimatilbúin leikföng?
Eru til hættulegir leikir?
Hafið þið leikið ykkur við einhvern í gegn um tölvuna? Jafnvel einhvern sem býr í öðru landi?

Ærslaleikir, bolta- og tuðruleikir

Sögur eru til af köppum sem léku knattleik. Meðal annars af Agli Skallgrímssyni þegar hann var sex ára. Egill hagaði sér nú ekki sérlega vel, en greinilegt er að þeir léku knattleikinn með einhverskonar kylfum:

„Knattleikur var lagður á Hvítárvöllum allfjölmennur á öndverðan vetur; sóttu menn þar til víða um hérað. Heimamenn Skalla-Gríms fóru þangað til leiks margir; Þórður Granason var helst fyrir þeim. Egill bað Þórð að fara með honum til leiks; þá var hann á sjöunda vetur; Þórður lét það eftir honum og reiddi hann að baki sér.
En er þeir komu á leikmótið, þá var mönnum skipt þar til leiks, þar var og komið margt smásveina, og gerðu þeir sér annan leik; var þar og skipt til.
Egill hlaut að leika við svein þann, er Grímur hét, sonur Heggs af Heggsstöðum; Grímur var ellefu vetra eða tíu og sterkur að jöfnum aldri. En er þeir lékust við, þá var Egill ósterkari; Grímur gerði og þann mun allan, er hann mátti. Þá reiddist Egill og hóf upp knatttréð og laust Grím, en Grímur tók hann höndum og keyrði hann niður fall mikið og lék hann heldur illa og kveðst mundu meiða hann, ef hann kynni sig eigi. En er Egill komst á fætur, þá gekk hann úr leiknum, en sveinarnir æptu að honum“ (úr Egils sögu).

Boltaleikir eru margs konar og reglurnar geta verið ólíkar. Líklega eru margir boltaleikir líka hlaupaleikir og því tilvaldir til að fá útrás fyrir hreyfiþörf. Það getur verið skemmtilegt að vera með ærsl og læti.

Heimsókn í Þjóðminjasafnið með safnkennurum

Svona er hægt að búa til bolta úr leðurafgöngum og þveng. Safnkennarar bregða á leik með boltann.


Verkefni:
Búið til bolta til dæmis úr samavöfðum sokkum eða vefjið saman leðri í tuðru. Markið pláss fyrir leikinn og búið til leikreglur. Það er hægt að vera með fleiri en einn bolta, líka nota eitthvað annað en fót eða hönd til að færa boltann, t.d knatttré. Það þarf að ákveða fyrirfram hver tilgangur leikjarins er svo að öll viti um hvað leikurinn snýst, hve mörg eru í liði, hvenær leikurinn er búinn og svo framvegis. Þið getið notað boltaleiki sem þið þekkið sem fyrirmynd en stundum er gaman að búa alveg til sinn eigin leik. Í tilbúna Quidditch leiknum í Harry Potter eru til dæmis ólíkir boltar, kylfur, fljúgandi kústar og mörkin þrjú á hvorri hlið.

Umræður: 
Umræður um öryggi við leiki. Eru slysagildrur í ærslaleikjum? Rýnið leikinn sem þið bjugguð til með það í huga hvort í honum leynast slysagildrur. Er hægt að breyta honum til að minnka slysahættu?

Greinar og stuðningsefni:
Boltar úr kindamaga á Sarpi hér og hér.

Capture56_1631270591193
Sögufrægur EM bolti.

Búleikur, útskorin dýr og fólk

Áður fyrr voru barnagull, þ.e. leikföng barna, frekar einföld og gáfu um leið tilefni til fjörugs ímyndunarafls. Leikir barnanna endurspegluðu það líf sem þau þekktu, fábreytt sveitalíf eða líf við sjávarsíðuna. Algengustu leikföng barna voru horn og bein sauðkindarinnar auk skelja og steina sem má finna úti. 

Oft áttu börnin sér lítil bú, kindaleggirnir voru hestar, menn eða sauðfé. Hornin voru sauðfé. Kjálkarnir voru kýr, tennurnar táknuðu þá spena en mjórri endinn hausinn. Einnig þjónuðu kjálkarnir hlutverki hesta. Kjúkurnar voru hundar. Sauðvölur voru kindur og kýrvölur voru kýr. 

Börn áttu oft mikið af völum sem geymdar voru í völuskríni eða gullastokk. Skeljar, kuðungar og fiskibein fengu hlutverk ýmissa dýra. Ef gera átti vel við börnin var þeim leyft að vefja bandi utanum leggina og dýfa ofan í litunarpott um leið og flík var lituð. Við það litaðist allur leggurinn nema undir bandinu og var þá kominn skjóttur hestur sem varð iðulega mesta perlan í leikfangasafninu. Einnig var hægt að lita leggina með því að stinga þeim í mykjuhauginn, við það urðu þeir svartir, grænir eða brúnir (Jónas Jónasson 1961:271, Símon Jón Jóhannsson og Bryndís Sverrisdóttir 1990:99 og Stefán Aðalsteinsson 1981:50).

Heimsókn í Þjóðminjasafnið með safnkennurum

Gullastokkur fyrr á dögum borinn saman við dótakassa nútímabarns. Vísað er til barnagulla í grunnsýningu safnsins.

 

Brot úr myndinni Vorið er komið frá 1959: Ungviðið að vori. 2:23 mín., tal


Á meðan bóndinn brýnir ljáinn leika börnin sér að leggjum og skeljum. Kúnum er hleypt úr fjósi með tilheyrandi stökkum og skvettum. Folöld, kettlingar og hvolpar.

Brot úr myndinni Vorið er komið frá 1959: Lömbin og börnin. 1:19 mín., tal

Drengur heldur á lambi meðan bóndinn markar það. Tveir smaladrengir leika sér í búleik á meðan þeir gæta þess að lambærnar fari ekki á túnið.

Verkefni:
Ræðið við foreldra og ömmur og afa um þeirra leiki og komist að því hvort að leikir barna hafa breyst mikið síðan þau voru lítil. Hvað er líkt og hvað er ólíkt? Segið svo frá í söguhring eða íslenskutíma. 

Búið til ykkar eigin leik úr fundnum hlutum. Það geta verið umbúðir, steinar og annað úr náttúrunni, föndraðir hlutir úr pappír eða eitthvað annað sem ykkur dettur í hug.

Tálgið karla, kerlingar og dýr úr ferskum viði í samstarfi við kennara í hönnun og smíði. Búið til fjöldann allan af alls konar fígúrum og úbúið heilt þorp eða sveitabæ þar sem allt fólkið hefur hlutverk. Svo getið þið endað á sýningu þar sem foreldrar fá að sjá afraksturinn.

Sjálfbærni og nýting auðlinda. Börnin í gamla daga léku sér með hluti sem fundust í umhverfinu. Berið saman við ykkar leikföng. Hvaðan koma þau, hvar eru þau búin til? Hér má styðjast við verkefnið Kostnaður náttúrunnar á bls. 50 í Sjálfbærni heftinu í ritröð um grunnþætti menntunar. 

Búið til völuskrín/gullastokk og fyllið af fundnum verðmætum sem nota má í leikjum.

Greinar og stuðningsefni:
- Hulda Stefánsdóttir. (1975). Gullastokkur, úr tímaritinu Hugur og hönd
- Öskupokar. Sarpssýning um öskupoka
- Spýtukerling líklega 17. eða 18. öld
- Leikur einn, gripur mánaðarins
- Gríman frá Stóruborg, gripur mánaðarins
- Loftskip, gripur mánaðarins
- Æskan á millistríðsárunum, á Sarpi
- Baldur og Konni, á Sarpi.

- Ísland á filmu. Heimildamyndin Vorið er komið frá 1959, 28 mín., tal.
Mynd Ósvaldar Knudsen, Vorið er komið, sýnir líf og störf í íslenskri sveit að vori og sumri. Torf er skorið, það er plægt, sauðfénu er smalað í réttir og ærnar rúnar. Á sveitabænum eru líka hestar, hundar og kettir. Sýnt er frá búleik barna með leggi og skeljar. Fylgst er með ungum smala sem gætir ánna og rekur þær heim í sel þar sem þær eru mjólkaðar. Þá er sýnt varp ýmissa fuglategunda, landslag og gróður, refur og yrðlingar. Textasmiður og þulur myndarinnar var Kristján Eldjárn. Tónlistin er byggð á gömlum þjóðvísum en útsett af Allan og Ingibjörgu Blöndal Stenning.

Hægt er að skoða myndir á vefnum Sarpur.is og slá inn í leitargluggann orð sem tengjast viðfangsefninu, eins og „börn“, „leikur“, „búleikur“, eða „leikföng“.

Daglegt líf og vinna barna

Börn fyrr á tímum þurftu að vinna með fullorðna fólkinu í sveitinni og við sjómennsku. Þau fengu ekki eins mikinn frjálsan tíma til að leika sér og í dag og fengu heldur ekki að læra eins mikið og krakkar nútímans. Námið fólst helst í vinnu þeirra. 

Born-og-heimalningur

„Börn voru snemma sett til vinnu og ábyrgðar. Yngstu börnin voru látin tæja ull, þ.e. reita hana sundur með fingrunum áður en hún var sett í kambana. Um sex ára aldur áttu börn að geta prjónað sokka og vettlinga og ekki var óalgengt að átta ára börnum væri ætlað að skila tveimur sjóvettlingum á viku. Vinnudagur barna var oft álíka langur og fullorðna fólksins“ (Bryndís Sverrisdóttir, 1990, bls. 3).

Verkefni:
Skrifið sögu út frá sjónarhorni barns sem þarf að vinna. Skoðið ljósmyndir af börnum við vinnu í þessu Power point skjali: Myndir af börnum við vinnu og leik.  Veljið barn til að skrifa um. Hér má hafa í huga nokkrar spurningar sem hjálpa til við sögugerðina: : Hvað heitir barnið? Hvað er barnið gamalt? Hvar á það heima? Hver eru í fjölskyldu barnsins, fullorðnir og önnur börn? Þarf barnið að vakna snemma? Hvaða verkefnum sinnir það? Finnst því vinnan skemmtileg? Finnst því vinnan eftirsóknarverð? Er vinnan erfið? Fær barnið tíma til að leika sér? Hvenær er háttatími?

Skoðið málshætti um vinnu. Á vef Mjólkursamsölunnar er listi málshátta. Hvaða sögu segja þessir málshættir um vinnu fyrri tíma? Búið til vísu sem notar orðin úr málsháttunum eða skrifið sögu þar sem ein sögupersónan notar málshátt í samhengi. 

Umræður:
Á vef Umboðsmanns Barna er fjallað um vinnu barna. Ræðið hlutverk barna í dag. Í hverju felst vinna barna í dag? Hvenær fá börn ábyrgðarhlutverk í dag sem kalla mætti vinnu?

Greinar og stuðningsefni: 
- Bryndís Sverrsdóttir (1990). Leikir barna um aldamótin 1900. Vinna og leikur, bls 3-4.
- Bryndís Sverrisdóttir (1990). Leikir barna um aldamótin 1900. Kennarahefti.
- Fjölskyldan á 20. öld. Hentar einkum mið- og unglingastigi.
- Margrét litla og önnur börn á miðöldum, sýningarskrá Þjóðminjasafns í Sjóminjasafni Íslands, 2000.
- Til að dýpka umfjöllun er hægt að leita fanga í svarlistum þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins eins og Sumardvöl barna í sveit eða Útileikir. Svarlistarnir eru yfirgripsmiklir og forvitnilegir.

Orðskýringar:

Sjálfsþurftarbúskapur. Á Íslandi sá heimilisfólk um að búa til allt sem heimilið þurfti. Það er kallað sjálfsþurftarbúskapur. Flestir bjuggu á bóndabæ með dýr sem gáfu það sem þurfti til að borða og búa til fötin. Á sumum bóndabæjum voru til árabátar til að veiða fisk og seli. Í Orðasjóði Kollsvíkinga eru ítarlegar orðskýringar, m.a. á hvað felst í sjálfsþurftarbúskap. Sjá hér:  https://kollsvik.is/ordasjodur-kollsvikinga/175-ordhasjodhur-s
Matvinnungur er sá eða sú sem vinnur og fær mat (og húsaskjól) í laun.
Niðursetningur er einstaklingur sem er á framfæri sveitarfélags, en býr ekki hjá fjölskyldu sinni. Börn sem lentu í því að missa foreldra sína voru stundum send til fólks sem fékk borgað fyrir að taka þau á heimilið. Önnur orð fyrir niðursetning eru sveitarómagi, hreppsómagi, þurfalingur eða ölmusumaður. Sjá ítarlega orðskýringu í Orðasjóði Kollsvíkinga:  https://kollsvik.is/ordasjodur-kollsvikinga/171-ordhasjodhur-n

Skák og borðspil

Þekkt borðspil eru til dæmis refskák og mylla sem útskýrð eru í Leikjaheftinu. Eldra borðspil er til dæmis hnefatafl en leikreglur þess eru ekki lengur þekktar til hlítar. Gripaheildin sem fyrst var skráð í Þjóðminjasafninu eftir stofnun þess árið 1863 var hnefatafl frá 10. öld.

Hnefatafl

Verkefni: 

Hannið ykkar eigið borðspil, sem þið getið svo spilað. Búið til taflborð/spilaborð og finnið svo smásteina, skeljar eða flöskutappa til að nota sem leikmenn. Ef þið viljið búa til ykkar eigin tening getið þið gert það líka, til dæmis úr leir eða strokleðri. Borðspil snúast til dæmis um herkænsku (að snúa á andstæðinginn) eða að púsla saman orðum. Spilið ykkar gæti til dæmis verið um eitthvað sérstakt sem þið eruð að læra í skólanum.

Spilið hnefatafl í spjaldtölvu eða síma. Sjá hér eða hér

Greinar og stuðningsefni:
Þorskkvarnir. Ágúst Ólafur Georgsson, úr Gersemar og þarfaþing.
Leikjahefti, leikir barna um aldamótin 1900.
Hnefinn úr Baldursheimskumlinu.

Þjóðsögur og ævintýri

Sagan af Hlina kóngssyni. Hljóðskrá. Upplestur Steinunn Guðmundardóttir. 8:23 mín.

AO-2139_1613049147471

Eftir hlustun má ræða um söguna. Hvaða leikir koma fram í sögunni? Hvernig tekst Hlina að losna úr álögum skessanna? Hvað er fjöregg og hvers vegna voru skessurnar að leika sér með það? Endar sagan vel?

 Heimildir og ítarefni

- Aníta Viggósdóttir. (2020). „Tímarnir breytast og mennirnir með“: þróun barnavinnu á 20. öld. Óúgefin BA ritgerð í uppeldis og menntunarfræðum. Sjá: http://hdl.handle.net/1946/37184
- Ágúst Ólafur Georgsson. (1994). Þorskkvarnir. Gersemar og þarfaþing. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands: Hið íslenska bókmenntafélag.
- Árni Björnsson. (1994). Öskupokar. Gersemar og þarfaþing. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands: Hið íslenska bókmenntafélag.
- Bryndís Sverrisdóttir (1990). Leikir barna um aldamótin 1900. (Óútgefið ljósrit).
- Bryndís Sverrisdóttir, (1990). Leikir barna um aldamótin 1900, kennarahefti. (Óútgefið ljósrit).
- Gyða Gunnarsdóttir. (2004). Barnagaman, leikir og leikföng um aldirHlutavelta tímans: menningararfur á Þjóðminjasafni.
- Sigrún Ásta Jónsdóttir. (2004). Leikföng 1989. Hlutavelta tímans: menningararfur á Þjóðminjasafni.

- Föt fyrr og nú. Lita og dúkkulísubók, útgefin af Þjóðminjasafni Íslands.
- Lífið í þjóðveldisbæ og Litabók Þjóðminjasafnsins: Litabækur Þjóðminjasafnsins.

Hugmyndir að frekara lesefni

- Jónas Jónasson frá Hrafnagili. (1961) Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
- Sigrún Helgadóttir og Sólrún Harðardóttir. (2009). Komdu og skoðaðu íslenska þjóðhætti. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
- Símon Jón Jóhannsson og Bryndís Sverrisdóttir. (1990). Bernskan, líf, leikir og störf íslenskra barna fyrr og nú. Reykjavík: Örn og Örlygur.
- Stefán Aðalsteinsson. (1981). Sauðkindin, landið og þjóðin. Reykjavík: Bjallan.
- Una Margrét Jónsdóttir. (2009). Allir í leik. Söngvaleikir barna: íslenskir leikir með söng og texta auk nokkurra leikja frá Færeyjum og Grænlandi. Reykjavík: Bókaútgáfan Æskan og Almenna útgáfan. 

Góða skemmtun.