Framhaldsskólar

Regnbogaþráðurinn

  • Hinsegin vegvísir - Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Regnbogaþráðurinn er hinsegin vegvísir í gegnum sýninguna Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár. Í honum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi. Með hugtakinu hinsegin er átt við kyn og kynverund sem samræmist ekki hefðum og venjum hvers tíma, þar á meðal fólk sem í dag væri kallað trans, intersex, kynsegin, samkynhneigt, tví-, pan- eða eikynhneigt.

Þráðurinn var unninn í samvinnu við Samtökin '78.

Ath.: Fyrir nemendur sem ekki komast í safnið, eða til upprifjunar eftir heimsókn, er hljóðleiðsögnin einnig aðgengileg á vef safnsins hér.

Heimsóknin fer þannig fram: Regnbogaþráðurinn er hljóðleiðsögn eða bæklingur sem leiðir gesti í gegnum grunnsýningu safnsins. Til þess að hlusta á hljóðleiðsögnina mæta nemendur með eigin snjallsíma og heyrnartól. (Það er líka hægt að fá lánað ef þörf krefur). Þegar á safnið er komið tekur safnkennari á móti hópnum og kynnir Regnbogaþráðinn með nokkrum orðum. Nemendur tengjast inn á gestanet Þjóðminjasafnsins og velja hljóðleiðsögn um Regnbogaþráðinn. Þráðurinn beinir gestinum að ellefu vörðum eða stöðum á grunnsýningunni þar sem staldrað er við og hlustað á fræðslu sem tengist efninu út frá viðkomandi stað á grunnsýningunni. Nemandinn styðst við kort af grunnsýningunni í símanum sínum, auk þess sem hver staður er merktur með límmiða með mynd af heyrnartólum í regnbogafánalitunum. Nemandi getur líka valið að hlusta ekki heldur styðjast við bækling með sama texta og lestinn er upp í hljóðleiðsögninni. Bæklingurinn liggur frammi í móttöku safnsins og nemendurnir mega taka eintak og nýta það í náminu.

Upplagt er að fá nemendum einfalt verkefni til að standa skil á heimsókninni. Til dæmis má biðja þá um að skrifa niður nokkur atriði svo sem:

  1. Það sem kom mér mest á óvart
  2. Það sem ég vil vita meira um
  3. Það sem vantar í frásögnina í Regnbogaþræðinum

Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar. 

Hægt er að bóka heimsókn framhaldsskóla á bókunarsíðu Þjóðminjasafns Íslands. Nánari upplýsingar: kennsla@thjodminjasafn.is eða hafið samband í síma 5302255 eða 5302254.