Grunnskólar

Baðstofulíf

  • 23.08.2019 - 31.12.2021 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Heimsóknin hentar vel nemendum á yngsta stigi. Lögð er sérstök áhersla á daglegt líf á sveitaheimilum á Íslandi fram á 20. öld, svo sem matseld, tóvinnu og leik. Nemendur fá að handfjatla eftirgerðir gripa til að setja sig í spor heimilisfólks torfbæja við leik og störf. Baðstofa er skoðuð og vöngum velt yfir því hvernig lífið hafi verið áður fyrr.

Markmið heimsóknar

  • Að nemendur viti hvers konar munir eru geymdir í Þjóðminjasafninu og af hverju þeir eru geymdir
  • Að nemendur fái innsýn í daglegt líf í torfbæ; húsverk, handavinnu og frístundir, svo sem leiki barna og kvöldvökur í baðstofunni og beri saman við sinn eigin raunveruleika
  • Að nemendur fái jákvæða og skemmtilega reynslu af safnheimsókn

 

 Fyrirkomulag heimsóknar

1bekkur-badstofa

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna. Hann kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Næst er gengið upp á efri hæð grunnsýningarinnar til að skoða baðstofu og þá gripi sem henni tengjast. Að því búnu er gengið í Stofu þar sem safnkennari segir frekar frá notkun gripa og nemendur fá tækifæri til að handfjatla þá. Að lokum er farið aftur niður í anddyri, safnkennari afhendir myndaspjöld og kveður hópinn.

Heimsóknin tekur um klukkustund. 

Bókun skólahópa í leiðsögn í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.