Grunnskólar

Safngripir í aldanna rás

  • 23.08.2019 - 31.12.2021 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Þessi heimsókn hentar einkum nemendum á yngsta stigi. Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, er sagan sögð í tímaröð og gegnir tíminn miklu hlutverki í heimsókninni. Grunnsýning safnsins spannar 1200 ár, frá landnámi til síðustu aldamóta, og kynnast nemendur sýningunni enda á milli.

Markmið

  • Að nemendur velti fyrir sér ástæðum þess að hlutir, t. d. fatnaður eða verkfæri, taka breytingum
  • Að nemendur noti tímaás sem verkfæri til að skilja þróun
  • Að nemendur fái jákvæða og skemmtilega reynslu af safnaheimsókn

Fyrirkomulag heimsóknar

Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna, kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins með skófatnað og samgöngur mismunandi tímabila sem leiðarstef. Skoðaðir eru ýmsir aðrir áhugaverðir gripir úr fortíðinni sem nemendur geta tengt við sinn raunheim. Staldrað er við tvenns konar tímaása sem spanna Íslandssöguna: Annar er teiknaður og sýnir framvindu sýningarinnar og þróun samfélagsins. Hinn er með gripum sem tengjast borðhaldi.

Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn.

Heimsóknin tekur um klukkustund.

Bókun skólahópa í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.