Grunnskólar

Safngripir í aldanna rás

  • 2021 - 2022 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Heimsóknin hentar öllum árgöngum á yngsta stigi en þó helst 3. og 4. bekk. Lögð er áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi.

Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár er sagan sögð í tímaröð og er þróun í gegnum tímabil leiðarstef í heimsókninni. Nemendur eru hvattir til að velta fyrir sér ástæðum þess að hlutir, lifnaðarhættir og umhverfi taka breytingum. Forgengileiki hluta og varðveisla þeirra er rædd. Grunnsýning safnsins spannar 1200 ár, frá landnámi til síðustu aldamóta, og kynnast nemendur sýningunni enda á milli.

Að heimsókn lokinni hafa nemendur komist að því hvers konar munir eru geymdir í Þjóðminjasafninu og af hverju þeir eru geymdir. Börnin hafa öðlast nokkra yfirsýn yfir mannlíf í landinu í gegnum aldirnar út frá vitnisburði sýningargripanna. Börnin hafa upplifað safnheimsókn sem jákvæða og skemmtilega reynslu.

Undirbúningur fyrir heimsókn og/eða eftirfylgni að henni lokinni

Gagnlegt getur verið að undirbúa heimsókn í safnið með því að skoða tímaás sem byggir á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Nokkrum gripum sem ber fyrir augu á sýningunni er raðað inn á ásinn ásamt ítarupplýsingum svo sem um stjórnarfar, mannfjölda og meðalhitastig:  Tímaás_800 - 2000.

Safnkennarar hafa útbúið veflæga fræðslupakka til notkunar í grunnskólum. Þeir fjalla um ullarvinnsluna og leiki og daglegt líf barna á 18. öld til fyrri hluta 20. aldar. Kennarar eru hvattir til að nýta sér efni fræðslupakkana í tengslum við heimsókn í safnið. Sjá fræðslupakkana hér: https://www.thjodminjasafn.is/thjonusta/hopar/skolar/fraedslupakkar

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og það er útskýrt í Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni:
Nemandi geti;

- sagt frá gerð og mótun íslensks samfélags fyrr og nú,
- bent á dæmi um hvernig sagan birtist í munum og minningum,
- bent á dæmi um áhrif tækni og framkvæmda á mannlíf og umhverfi,
- komið auga á þætti sem hafa haft áhrif á mannlífið í tímans rás, svo sem umhverfi og skipulag samfélaga,
- áttað sig á mikilvægi fjölskyldunnar og fjölbreytni fjölskyldugerða í samfélagi manna, bent á dæmi um hefðbundin kynhlutverk og breytingar á þeim,
- tekið þátt í samstarfi og samræðu í jafningjahópi,
- sýnt tillitssemi og umhyggju í leik og starfi. (Bls. 198 – 203).

Fyrirkomulag heimsóknar

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Börnin mega fara úr skóm ef þau koma við opnun safnsins og þurrt er úti. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins með m.a. fatnað, verkfæri og samgöngur mismunandi tímabila sem leiðarstef. Skoðaðir eru ýmsir áhugaverðir gripir úr fortíðinni sem nemendur geta tengt við sinn raunheim. Hér og þar má þreifa á snertigripum til þess að auðga reynsluna. Staldrað er við sýningarskáp með gripum sem tengjast borðhaldi og spannar Íslandssöguna, frá landnámsöld til nútímans.

Að lokum er nemendum fylgt niður í anddyri og safnkennari kveður hópinn. Heimsóknin tekur um klukkustund.

Bókun skólahópa í fræðslu í Þjóðminjasafni Íslands fer fram í gegn um bókunarsíðu safnsins.