Grunnskólar

Í spor landnámsfólksins, Saga úr jörðu

  • 23.08.2019 - 31.12.2021 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Þessi heimsókn hentar einkum miðstigi en hægt er að aðlaga hana öllum aldurshópum. Í heimsókninni er fjallað um landnámstímann og fornleifar frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi skoðaðar. Yfirstandandi sýning í Bogasal, Saga úr jörðu , fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit og skiptist tíminn á milli grunnsýningar safnsins og sýningarinnar í Bogasal. Heimsóknin samanstendur af spjalli og fróðleik, skoðun gripa í sýningarskápum auk snertigripa sem má handleika og tækifæri til að kynnast tækjum og aðferðum fornleifafræðinnar. 

Markmið: 

  • Að nemendur þekki gripi og fornleifar sem varðveist hafa frá landnámsöld
  • Að nemendur geti sett sig í spor landnámsfólksins
  • Að nemendur öðlist skynbragð á trú og siði fyrir kristnitöku
  • Að nemendur fái tilfinningu fyrir sögulegum minjum og frumheimildum af ólíku tagi

Fyrirkomulag heimsóknar:

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna, kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Gengið er upp í sýningarsali. Í landnámshluta grunnsýningar safnsins ræðir safnkennari landnámið og einstaka gripi á sýningunni. Eftirgerðir af gripum frá tímabilinu eru hafðar frammi. Í Bogasal kynnast nemendur aðferðum fornleifafræðinnar og ýmsu merku sem komið hefur í ljós um fólkið sem bjó á Hofstöðum fyrstu aldir Íslandssögunnar. Að lokum, ef tími gefst til, mega nemendur fara með kennara sínum til Stofu þar sem má máta búninga, lita, kíkja í bækur og leika sér.

Heimsóknin tekur um 1 klst. án frjáls tíma í Stofu.

Bókun skólahópa í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.