Grunnskólar

Trúarbrögð og siðaskipti

  • 23.08.2019 - 31.12.2021 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Þessi heimsókn hentar vel nemendum á miðstigi og unglingastigi. Þjóðminjasafnið varðveitir marga gripi sem tengjast trúarlífi Íslendinga fyrr á öldum. Í heimsókninni er farið yfir trúarsiði Íslendinga frá landnámi og fram yfir siðaskipti.

Áhersla er lögð á það víðtæka hlutverk sem trúin gegndi í lífi almennings fyrr á öldum og þær umbreytingar sem urðu á trúarlífi Íslendinga fyrst við kristnitöku og aftur við siðaskipti. Nemendum er bent á hvernig hægt er að túlka trúarlíf í gegnum aldirnar út frá safngripum.

Markmið:

  • Að nemendur fái tilfinningu fyrir trúarlífi landsmanna fram yfir siðaskipti.
  • Að nemendur öðlist innsýn í áhrif kristnitöku og siðaskipta á samfélagið.
  • Að nemendur þekki gripi sem tengjast trúariðkun.

Barnaleidsogn_20130610_Skemmtimennt_HE_062

Fyrirkomulag heimsóknar:

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna, kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins þar sem valdir gripir eru skoðaðir og ræddir. Hér má nefna Þórslíkneskið, kuml, kirkjulíkan, kirkjuþil og kirkjugripi úr kaþólskum sið, hökul Jóns Arasonar, Guðbrandsbiblíu og aðra muni sem tengjast Guðbrandi biskupi og siðaskiptunum. Heimsókninni lýkur á efri hæð grunnsýningarinnar Þjóð verður til með skoðun gripa úr lúterskum sið. Auk kirkjugripa eru þar munir sem tengjast refsingum, galdraiðkun og guðsótta.

Leiðsögnin tekur um klukkustund.

Bókun skólahópa í heimsókn í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.