Grunnskólar

Miðstig: Trúarbrögð og siðaskipti

Dagskráin er einkum ætluð nemendum á miðstigi en hana er hægt að aðlaga öðrum aldurshópum. Í heimsókninni er farið yfir trúarsiði Íslendinga frá landnámi og fram yfir siðaskipti.

Smellið hér til að bóka heimsókn

Lögð er áhersla á að heimsóknin sé uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um hvernig þau tengja við sýningargripi, hugarheim, lífsviðhorf og siðferði fólks á ólíkum tímum Íslandssögunnar.

Að heimsókn lokinni hafa nemendur kynnst hugtökum trúarbragða, svo sem Norræn goðafræði, heiðni, kristni, kaþólska, lútherska, helgisiðir og helgirit. Þau hafa kynnst táknum, myndum, skreyti og ýmsum búnaði sem tengist trúarbrögðum og sjá má á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Þau geta staðsett lykilpersónur úr sögunni í tíma og tíðaranda. Börnin hafa jafnframt upplifað Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja.

Hæfniviðmið og menntagildi

Menntagildi samfélagsgreina eins og þau eru útskýrð í Aðalnámskrá grunnskóla eru höfð að leiðarljósi:

1) Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.

2) Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.

3) Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja (bls. 195).

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmið samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá í heimsókninni; 

Nemandi geti:

- skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú,
- gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa,
- vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalmynda, hvernig vinna megi með þau á sjálfstæðan og uppbyggjandi hátt,
- greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,
- sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum,
- rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
- dregið upp mynd af afmörkuðum efnisþáttum stórrar og smárrar sögu, nálægrar eða fjarlægrar,
- lýst margbreytileika helstu trúarbragða og lífsviðhorfa og áhrifum þeirra á líf fólks,
- rætt viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og sett í samhengi við atburði daglegs lífs,
- gert grein fyrir völdum frásögnum, hefðum, hátíðum, siðum og táknum í kristni og nokkrum helstu trúarbrögðum heims,
- borið saman valin trúar- og lífsviðhorf,
- nefnt dæmi um áhrif helgirita helstu trúarbragða á menningu og samfélög,
- borið kennsl á trúarlegar vísanir og tjáningu í listum og bókmenntum (bls. 198 – 203).

Fyrirkomulag heimsóknar

Barnaleidsogn_20130610_Skemmtimennt_HE_062Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Útifatnaður er hengdur upp í fatahengi í kjallara. Hópurinn sest á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður börnin velkomin. Dagskrá heimsóknarinnar er kynnt og farið yfir þær reglur sem gilda á safni.

Safnkennarinn leiðir hópinn um grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til. Þjóðminjasafnið varðveitir marga gripi sem tengjast trúarlífi Íslendinga fyrr á öldum. Valdir gripir eru skoðaðir og ræddir. Hér má nefna Þórslíkneskið og kuml úr heiðni, kirkjulíkan, kirkjuþil, hökul Jóns Arasonar og fleiri kirkjugripi úr kaþólskum sið, Guðbrandsbiblíu og aðra muni sem tengjast lútherskunni. Heimsókninni lýkur á efri hæð grunnsýningarinnar Þjóð verður til með skoðun gripa úr lúterskum sið. Auk kirkjugripa eru þar munir sem tengjast refsingum, galdraiðkun og guðsótta.

Heimsóknin tekur um 60 mínútur. Dagskráin er einkum ætluð börnum á miðstigi en hana er hægt að aðlaga öðrum aldurshópum. Æskilegt er að ekki séu fleiri en 25 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best. Heimsóknir skólahópa eru ókeypis.

Smellið hér til að bóka heimsókn